fbpx
Föstudagur 29.nóvember 2024
Fréttir

Sérsveitin braust inn í Skáksamband Íslands og handtók saklausan forsetann: „Þetta var eins og í Hollywood-mynd“

Fjórtán alvopnaðir sérsveitarmenn ruddust inn á skrifstofu sambandsins og færðu forsetann í járn

Björn Þorfinnsson
Miðvikudaginn 17. janúar 2018 16:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðastliðinn mánudag ruddust fjórtán sérsveitarmenn með alvæpni inn í skrifstofuhúsnæði við Faxafen og handtóku þar tvo menn á vettvangi. Aðgerðin tengdist innflutningi á fíkniefnum en kassi, þar sem fíkniefni voru falin í tilteknum munum, hafði skömmu áður borist í DHL-sendingu í húsnæðið. Það sem var óvenjulegt við þessa aðgerð er það að vettvangur hennar var skrifstofa Skáksambands Íslands og annar hinna handteknu var Gunnar Björnsson, forseti sambandsins. „Það má segja að ég sé bara lítið peð sem var fórnað í valdatafli undirheimanna,“ segir Gunnar glettinn í samtali við DV. Hann þurfti að dúsa í varðhaldi í 1-2 klukkutíma og þurfti að undirgangast yfirheyrslu lögreglu. Rétt er að geta þess að lögregla telur að aðild Gunnars að málinu sé aðeins sú að hann tók grunlaus við sendingunni.

Forsetinn færður í járn

„Við fengum tilkynningu um að okkur hefði borist pakki frá Spáni. Framkvæmdastjóri sambandsins sér yfirleitt um að panta vörur og hún kannaðist ekkert við pakkann. Ég ákvað engu að síður að kvitta fyrir móttöku hans þegar mér var tilkynnt að flutningsgjöldin hefðu verið greidd fyrirfram,“ segir Gunnar. Brögð reyndust vera í tafli því þrátt fyrir að í kassanum væru sannarlega skákvörur þá kom á daginn að þær voru fullar af fíkniefnum.

DHL-sendillinn var nýfarinn þegar riddarar sérsveitarinnar ruddust inn með látum. „Þetta var eins og í Hollywood-mynd. Ég væri að ljúga ef ég segðist ekki hafa komist í uppnám,“ segir Gunnar sem var umsvifalaust handtekinn. Þá ákváðu sérsveitarmenn að tefla ekki á tvær hættur heldur færðu forsetann einnig í járn. Yfir Gunnari stóð voldugur sérsveitarmaður og spurði í skipandi tón hver Gunnar væri. „Ég svaraði því til að ég væri forseti Skáksambandsins,“ segir Gunnar og getur ekki annað en hlegið þegar hann rifjar atburðarásina upp.

Sérsveitin braut allt og bramlaði

Skrifstofa Skáksambandsins að Faxafeni 12 er samtengd húsnæði Taflfélags Reykjavíkur. Á milli rýmanna er voldug millihurð og eftir að hafa kembt húsnæði sambandsins beindist áhugi sérsveitarmanna að húsnæði Taflfélagsins þar sem þeir urðu varir við mannaferðir. Þar leigir einstaklingur skrifstofurými og honum varð verulega brugðið þegar sérsveitarmaður með lambhúshettu öskraði á hann að opna dyrnar. Maðurinn komst að þeirri niðurstöðu eftir skamma umhugsun að besti leikurinn í stöðunni væri sá að láta sig hverfa af vettvangi. Leikfléttan gekk þó ekki upp því maðurinn var handtekinn þegar hann hann var kominn út undir bert loft í gegnum annan inngang. Við handtökuna gaf maðurinn þær skýringar að hann hafi ekki vitað að um sérsveitarmann lögreglu væri að ræða heldur talið að þarna væri einhver óprúttinn misindismaður á ferðinni. Því hafi hann yfirgefið húsnæðið. Manninum var strax sleppt úr haldi enda augljóst að hann tengdist málinu ekki neitt.

Að sögn Gunnars bætti ekki úr skák að sérsveit lögreglu gekk mjög hart fram í aðgerðinni. Hurðir voru brotnar niður í Skáksambandinu sem og Taflfélagi Reykjavíkur. „Brot úr hurðunum voru úti um allt og óneitanlega talsvert tjón. Lögreglan hefur tilkynnt mér að allt tjón verði bætt,“ segir Gunnar. Þegar sérsveitarmenn voru búnir að tryggja húsnæðið var Gunnar færður til yfirheyrslu.

Hér sjást liðsmenn sérsveitarinnar í aðgerðum sínum við Faxafen. Á sama tíma var aðgerð í Mosfellsbæ þar sem aðilar tengdir Hvíta Riddaranum voru handteknir.
Fullir vasar af dópi Hér sjást liðsmenn sérsveitarinnar í aðgerðum sínum við Faxafen. Á sama tíma var aðgerð í Mosfellsbæ þar sem aðilar tengdir Hvíta Riddaranum voru handteknir.

Yfirheyrður bróðurpart úr degi

„Mér var tjáð að lögreglan yrði að yfirheyra mig enda tók ég við pakkanum,“ segir Gunnar. Hann þurfti því að dúsa í haldi lögreglu bróðurpart úr degi, aðgerðin átti sér stað um klukkan 13.00 mánudaginn 8. janúar en Gunnar losnaði úr haldi lögreglu um kvöldmatar leytið. „Þetta var ákveðin lífsreynsla, það er ekki hægt að segja annað. Ég hefði samt alveg viljað sleppa við hana,“ segir Gunnar en bætir við að lögreglumennirnir sem handtóku hann hafi sýnt fyllstu kurteisi og háttvísi miðað við aðstæður. Aðspurður um framhaldið segist Gunnar ekki hafa hugmynd um hvað taki við: „Ætli svartur eigi ekki leik.“

Á sama tíma og aðgerðin í Skáksambandinu fór fram var svipuð aðgerð í húsnæði Hvíta Riddarans í Mosfellsbæ. Þar var einn einstaklingur handtekinn og annar síðar um daginn. Mennirnir eru á þrítugsaldri og hafa þeir verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald, grunaðir um að hafa skipulagt innflutning á efnunum. Þeir sæta báðir einangrun. Samkvæmt heimildum DV lagði lögreglan hald á um átta kílógrömm af eiturlyfjum í aðgerðinni. Heimildum blaðsins ber ekki saman um hvort um amfetamín eða kókaín hafi verið að ræða. Ljóst er þó að söluandvirði efnanna á götunni hleypur á tugum, ef ekki hundruð milljónum króna.

Aðgerðir lögreglu í Faxafeni

Hér má sjá myndbrot frá aðgerðum sérsveitarinnar við húsnæði Skáksambands Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Norðurkóresk flugskeyti innihalda vestræna íhluti

Norðurkóresk flugskeyti innihalda vestræna íhluti
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Af hverju er svona hljótt? Þetta verður sífellt óþægilegra

Af hverju er svona hljótt? Þetta verður sífellt óþægilegra