Jose Mourinho, stjóri Manchester United, er opinn fyrir því að fá Memphis Depay aftur til félagsins frá Lyon.
Memphis var seldur til Lyon fyrir 16 milljónir punda en hann þótti ekki standast væntingar hjá United. Louis van Gaal fékk leikmanninn frá PSV Eindhoven.
Mourinho var spurður út í leikmanninn í gær en talið er að United sé með kauprétt á honum í framtíðinni.
,,Hann gæti orðið mjög góður leikmaður. Þegar herra Van Gaal ákvað að kaupa hann þá vissi hann hver hann var úr landsliðinu. Hann var mjög ungur á HM og sýndi gæði,“ sagði Mourinho.
,,Hann spilaði mjög vel í Hollandi en hollenska deildin er ekki eins. Hann sýndi þó góða hluti.“
,,Ég tel að Van Gaal og Manchester United hafi gert vel með að kaupa hann. Hann náði ekki árangri á fyrstu 18 mánuðunum en hann er enn mjög ungur.“
,,Það er mikilvægt að félagið hafi stjórn á hans hæfileikum og við óskum þess að hann spili vel hjá Lyon og af hverju ekki að koma aftur því allir tala vel um hann.“