Laugardaginn 22. september kl. 13-15 á sér stað fjölskyldustund sem listamaðurinn Styrmir Örn Guðmundson leiðir.
Styrmir vinnur með gjörningalist, break dans, rapp/söng, teikningar, skáldverk, skúlptúr og leikstjórn. Á námskeiðinu sýnir hann þátttakendum hvernig þessi mismunandi listform geta fléttast saman inn í frásagnir sem verða að gjörningum.
Á sýningunni SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR er Styrmir með verkið Líffæraflutningur sem samanstendur af fjórum skúlptúrum í formi mismunandi líffæra úr keramiki sem jafnframt eru hljóðfæri.
Á sýningunni SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR er samtímalistamönnum boðið að ganga inn í yfirlitssýningu á verkum Gerðar Helgadóttur og með því er gerð tilraun til að draga fram skúlptúrinn í samtímanum.
Fjölskyldustundir á laugardögum eru í boði Menningarhúsanna í Kópavogi sem eru Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa, Salurinn og Héraðsskjalasafn. Viðburðurinn er opinn öllum og er þátttaka gestum að kostnaðarlausu.