EVE: Valkyrie og Gunjack marka tímamót í sögu CCP
Tölvuleikjaframleiðandinn CCP gaf í dag út tvo leiki, EVE: Valkyrie og Gunjack, fyrir PlayStation 4 leikjavélar SONY. Útgáfan markar ákveðin tímamót í sögu CCP sem hér gefur út sína fyrstu leiki fyrir PlayStation 4.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að bæði EVE: Valkyrie og Gunjack séu leikir á sviði sýndarveruleika (e. virtual reality, VR) og koma þeir út samhliða útgáfu SONY á PlayStation VR búnaðinum fyrir PlayStation 4 .
„Báðir leikirnir hafa komið út fyrir Oculus Rift á PC, auk þess sem Gunjack hefur einnig komið út fyrir HTC Vive á PC og náð metsölu fyrir Samsung Gear VR búnaðinn ætlaður farsímum fyrirtækisins,“ segir í tilkynningunni.