Ritstjórn DV Laugardaginn 15. september 2018 18:30
Frægð fylgir ekki alltaf peningum ekki frekar en að peningum fylgi frægð, á það sérstaklega við hér á landi. Það gerist þó oft og eiga margir þekktir einstaklingar nóg af peningum. DV tók saman nokkra fræga sem eru ekki á flæðiskeri staddir.
Kári Stefánsson: Fagraþing 5, Kópavogur
Kári er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og hefur verið frá stofnun árið 1996. Hann er læknir og starfaði áður sem prófessor í taugalækningum, taugameinafræði og taugalíffræði við Harvard-háskólann í Boston og sinnti sjúklingum við Beth Israel-sjúkrahúsið þar í borg.
Undanfarið hefur hann tekið þátt í pólitískri umræðu með beittum skrifum um bæði forsætisráðherra og borgarfulltrúa. Árið 2016 hrinti Kári af stað undirskriftasöfnuninni Endurreisum heilbrigðiskerfið og safnaði 85 þúsund undirskriftum um að ríkið verði 11 prósentum af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál. Þó svo að Kári hafi efnast mikið á undanförnum árum sem forstjóri og byggt glæsihýsi í Kópavogi hikar hann ekki við að standa á sínu. Stóð hann lengi í deilum við hina ýmsu verktaka sem unnu að smíði hússins.
Kristján Loftsson: Laugarásvegur 19, Reykjavík Kristján er einn óvinsælasti Íslendingurinn á erlendri grundu, þá sérstaklega meðal þeirra sem er annt um hvali. Sem eigandi og forstjóri Hvals hefur hann í áratugi talað fyrir sjálfbærum hvalveiðum, alþjóðlegum dýraverndarsinnum til mikillar óánægju, en Kristján hefur eldað grátt silfur við samtök á borð við Greenpeace allt frá áttunda áratug síðustu aldar.
Kristján hefur verið umsvifamikill í íslensku viðskiptalífi, í vor seldi hann eign sína í HB Granda fyrir nærri 22 milljarða króna. Samkvæmt Tekjublaðinu er hann launahæsti einstaklingurinn í sjávarútvegi og landbúnaði með 4,7 milljónir króna í mánaðarlaun. Hann býr ásamt eiginkonu sinni í stórglæsilegu einbýlishúsi í Laugarnesinu.
Lilja Pálmadóttir og Baltasar Kormákur: Miðstræti 7, Reykjavík
Lilja Sigurlína er yngsta dóttir Pálma Jónssonar, sem stofnaði Hagkaup árið 1959 og lést árið 1991. Arfurinn var drjúgur og hafa systkinin fjárfest í Högum og öðrum félögum. Til að mynda átti Lilja 0,33 prósenta hlut í Högum árið 2016.
Árið 2001 gekk Lilja að eiga leikarann Baltasar Kormák Baltasarsson en hann hefur síðan haslað sér völl sem leikstjóri, bæði á Íslandi og í Hollywood. Meðal þeirra kvikmynda og þáttaraða sem hann hefur stýrt eru Hafið, Mýrin, Contraband og Ófærð. Myndirnar hafa verið vinsælar og þær amerísku skilað milljörðum í kassann.
Árið 2013 voru eignir Lilju og Baltasars metnar á þrjá milljarða króna. Hjónin hafa lengi búið í gömlu og glæsilegu bárujárnshúsi við Miðstræti í miðbæ Reykjavíkur. Þau eru einnig ábúendur á Hofi í Skagafirði, sem er nýmóðins glæsihýsi sem hefur verið verðlaunað af erlendum arkitektasamtökum.
Pálmi, faðir Lilju, var frá þorpinu Hofsósi og var hún Lilja á meðal þeirra sem gáfu staðnum nýstárlega sundlaug sem hefur eflt komu ferðamanna þangað.
Róbert Wessman: Vatnsstígur 22, Reykjavík
Róbert Wessman er stofnandi og forstjóri lyfjafyrirtækisins Alvogen. Hann þekkir vel til í þeim geira en áður var hann forstjóri Actavis, frá aldamótum til 2008. Hann stofnaði svo Alvogen árið 2009 og hefur fyrirtækið stækkað frá því að vera lítið fyrirtæki í Bandaríkjunum í að vera alþjóðlegt fyrirtæki með starfsemi í 35 löndum með höfuðstöðvar í Vatnsmýrinni í Reykjavík.
Forstjóralífið er ljúft og Wessman þarf ekki að ganga í Dressman, en samkvæmt Tekjublaðinu í fyrra var hann með 320 milljónir í laun eða 26 milljónir á mánuði. Það hefur gert honum kleift að gera vel við sig en hann á dýrustu íbúð sem Íslendingur hefur átt, 373 fermetra íbúð í New York með útsýni yfir Central Park.
Síðustu jólum eyddi hann á Barbados. Róbert er mikið í fréttum, nú síðast þegar hann trúlofaðist Kseniu Shakhmanovu í miðju eldfjalli. Þegar Róbert er á Íslandi býr hann í glæsilegri íbúð við Vatnsstíg í Skuggahverfinu.
Þórður Már Jóhannesson: Heimalind 24, Kópavogur
Fjárfestirinn Þórður Már Jóhannesson hefur komið víða við á viðskiptaferli sínum en hann er þekktastur fyrir að hafa verið forstjóri fjárfestingarbankans Straums-Burðaráss en var rekinn eftir tíu mánuði í starfi. Þá var hann einnig forstjóri og hluthafi í fjárfestingarfélaginu Gnúpi sem fór á hliðina í bankahruninu. Eftir hrunið dró hann sig í hlé frá viðskiptalífinu en kom svo af fullum þunga inn aftur árið 2012.
Þórður á meðal annars 6,5 prósenta hlut í Festum, sem reka lágvöruverslunina Krónuna og Elko. Nýlega keypti olíufélagið N1 12 prósenta hlut á 1,7 milljarða króna.
Þórður hefur einnig verið eigandi í félögum á borð við Brekku Retail, leigufélaginu Heimavöllum og bílaþvottastöðinni Lindinni.
Eiginkona Þórðar er Nanna Björg Lúðvíksdóttir, fyrrverandi ritstjóri og golfari. Þau búa í glæsilegu einbýlishúsi við Heimalind í Kópavogi.