„Ég er svo nýkomin hingað og óöruggur með allt.“ Þetta segir Florin Tudor frá Rúmeníu en hann hefur starfað við byggingavinnu á Íslandi í nokkrar vikur. Vinnudagarnir eru langir og kaupið er lágt. Frásögn hans lýsir veruleika erlends verkafólks sem kemur til Íslands að sækja sér lífsbjörg.
Frásögn Florin birtist á heimasíðu verkefnisins Fólkið í Eflingu, en þar má lesa sögur þúsunda einstaklinga sem eiga það sameiginlegt að vinna mikilvæg en oft á tíðum vanmetin störf í íslensku samfélagi.
Florin vann á Ítalíu í 10 ár áður en hann kom til Íslands. Hann starfaði í verksmiðju, byggingarvinnu og sem bílstjóri.
„Það er svo auðvelt fyrir Rúmena að aðlagast ítölsku samfélagi, við eigum svo auðvelt með tungumálið, það er svo mikill skyldleiki á milli rúmensku og ítölsku. Ég bjó og starfaði á norður Ítalíu, í Mílanó og Lombardi.
Ég myndi helst vilja flytja þangað aftur og þá með fjölskylduna með mér. Til þess að það verði að veruleika þarf ég að safna og eiga sjóð, ég verð að byrja á því að finna vinnu og húsnæði og koma okkur fyrir.
Hingað til Íslands kom ég fyrir nokkrum vikum og réð mig í byggingarvinnu í gegnum starfsmannaleigu. Við vinnum tíu tíma á dag og sex tíma á laugardögum. Ég er með 1.600 krónur á tímann í dagvinnu og 2.600 krónur í yfirvinnu. Ég er svo nýkomin hingað og óöruggur með allt. Ég hef verið lasinn upp á síðkastið, það er svo kalt og ég bý í húsnæði þar sem ofnarnir eru bilaðir og það næðir í gegnum gluggana.“
Í lýsingu á vef verkefnisins Fólkið í Eflingu segir meðal annars:
Í Eflingu eru tuttugu og sjö þúsund félagar sem vinna mikilvæg störf í Íslensku samfélagi en oft á lágum launum. Störf félaganna eru mörg og margskonar á veitingahúsum, í fyrirtækjum og verksmiðjum sem væru varla starfandi ef það væri ekki vegna fólksins í Eflingu, hug þeirra og hendur. Fólkið í Eflingu stendur við vélarnar, þjónar, skúrar, bónar og annast börnin, sjúka og aldraða.