Skáksnillingurinn Garry Kasparov gagnrýnir leikarana Jamie Foxx og Lukas Haas harðlega fyrir að leggja lag sitt við forseta Venesúela, Nicolas Maduro, sem hann kallar alræmdan. Leikararnir brugðu sér í heimsókn til Venesúela og myndir birtust af þeim með forsetanum og eiginkonu hans.
Ástandið í landinu er ekki gott, fátækt er útbreidd, efnahagur landsins er í molum, glæpatíðni er talin ein sú hæsta í heimi, morð eru daglegt brauð og pólitískir andstæðingar stjórnvalda eru fangelsaðir. Í bréfi til leikaranna minnir Kasparov á allt þetta og segir að ástæða sé til að ætla að heimsókn leikaranna tengist viðskiptum. Hann segir þá skulda aðdáendum sínum um allan heim skýringar á heimsókninni. Kasparov skrifaði bréfið í nafni mannréttindasamtakanna HRF (Human Rights Foundation), sem hann er í forsvari fyrir.