Ásmundur Helgason bókaútgefandi og eigandi Drápu komst að því í gær að lestur spennandi bókar fer ekki vel saman með því að láta renna í bað.
„Ég lét semsagt renna í bað í morgun, náði í kaffibolla og ætlaði rétt að byrja að fara yfir handritið að næstu bók,“ segir Ásmundur. „Hún þarf nefnilega að fara að komast í prentun svo við náum útgáfu fyrir jól.“
49 mínútum seinna mundi Ásmundur svo eftir baðinu. Stöðuna á parketinu má sjá á meðfylgjandi mynd. „Ella tók þessu bara með jafnaðargeði,“ segir Ásmundur og á þar við eiginkonuna Elínu G. Ragnarsdóttur.
Bókin sem Ásmundur var svona niðursokkinn í er PAX-Níðstöngin, sem er fyrsta bókin í sænskri seríu fyrir ungmenni. Bókin kemur vonandi út fyrir jól, ef að Ásmundur passar að lesa ekki um leið og hann lætur renna í baðið.