Hvar annarstaðar en í Frakklandi?
Samkvæmt frásögnum The Mirror mun Clermont-Ferrand háskólasjúkrahúsið í Frakklandi opna vínbar á líknadeildinni, svo að dauðvona sjúklingar geti notið þess að fá sér einn eða tvo gráa með ættingjum og aðstandendum. Starfsfólk deildarinnar fær einnig sérstaka þjálfun í að eiga við teitisglaða sjúklinga. Verður sjúkrahúsið það fyrsta í veröldinni til þess að bjóða upp á vín til þess að kæta sjúklinga sína rétt fyrir svefninn langa. Læknarnir trúa því að nokkrir sjússar með vinum og vandamönnum geti aukið lífsgæði dauðvona sjúklinga til muna og hafi góð áhrif á síðstu daga fólks. Að sögn Dr. Guastella er þetta tilraun til þess að endurhugsa umsjá sjúklinga á sjúkrahúsinu og taka tillit til mennsku þeirra og tilfinninga.
Rauðvín inniheldur undraefnið resveratrol, sem samkvæmt vísindamönnum minnkað áhættuna á hjartaáföllum, hjálpað þeim sem stríða við ofþyngd, lækkað kólesteról, komið í veg fyrir blóðtappa og hjálpað til í baráttunni gegn krabbameini. Vísindamenn hafa þá uppgötvað að dagleg neysla af resveratroli af því sem samsvarar tveim glösum af víni, getur helmingað líkurnar á magaæxlum í músum. Rannsóknir standa nú yfir á sjúkrahúsinu í Leicester um hvort resveratol geti jafnvel eitt og sér verið framleitt sem fyrirbyggjandi lyf gegn krabbameini. Ætli margir kjósi samt ekki að innbyrða resveratolskammtinn með hefðbundnum hætti, þ.e. með því að sötra gott rauðvín?