Þremenningarnir höfðu fengið veður af fyrirtæki sem er í eigu rússneskra kaupsýslumanna sem tengjast Vladimír Pútín Rússlandsforseta nánum böndum. Auk þess tengjast þessir kaupsýslumenn leynilegum her rússneskra málaliða sem er þekktur undir nafninu Wagner-hópurinn. Þetta fyrirtæki er nýbyrjað að stunda námuvinnslu í Mið-Aríkulýðveldinu.
Blaðamennirnir ætluðu að fara að gullnámu á yfirráðasvæði eins uppreisnarhópsins og rannsaka tengsl Rússa og áhrif þeirra. Þessu skýrði Mikhail Khodorkovsky, stofnandi The Centre for Investigation í Moskvu, frá eftir að fréttist af morðunum. Hann sagði að þremenningarnir hafi starfað með fleirum að rannsókn á málinu og hafi hún að hluta snúið að rússneskum leigumorðingjum.
Khodorkovsky var eitt sinn ríkasti maður Rússlands. Í dag er hann þekktastur fyrir að vera einn mesti gagnrýnandi landsins á stjórn Pútíns.
Maria Zakharova, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, var fljót að bregðast við fréttum af málinu og sagði að málið sem blaðamennirnir voru að rannsaka hefði ekki verið „neitt merkilegt“. Hún vísaði einnig til nýlegs samnings Rússlands og Mið-Afríkulýðveldisins um hernaðarsamstarf ríkjanna.
Margir telja það opinbert leyndarmál að rússneskir málaliðar séu að störfum í Afríku en ekki er vitað hversu margir þeir eru eða hvað þeir eru að gera. Financial Times hefur eftir Lewis Mudge, sem sérhæfir sig í rannsóknum á afrískum málefnum fyrir mannréttindasamtökin Human Rights Watch, að fólk í Mið-Afríkulýðveldinu segi að liðsmenn Wagner séu þar að störfum. Á undanförnum árum hefur komið fram í dagsljósið að rússneskir málaliðar hafa starfað með mikilli leynd í Úkraínu og í Sýrlandi en eins og í Mið-Afríkulýðveldinu hvílir mikil leynd yfir verkefnum þeirra og þeirri staðreynd að þeir séu til staðar. Hvað varðar samstarfssamning Rússlands og Mið-Afríkulýðveldisins þá felst í honum að Rússar sendi fimm hernaðarráðgjafa og 170 almenna ráðgjafa til Bangui. Rússar vinna að þjálfun hers landsins í dag og öryggissveita Faustin Touadera forseta. Svo vill til að nánustu öryggisráðgjafar forsetans eru Rússar. Rússar selja einnig vopn til landsins og aðstoða við rekstur æfingabúða í borginni Sibut en rússnesku blaðamennirnir þrír heimsóttu borgina einmitt á ferð sinni um landið. Í lok ágúst skrifaði varnarmálaráðherra Rússlands undir nýjan samstarfssamning við starfsbróður sinn frá Mið-Afríkulýðveldinu um enn frekari samvinnu ríkjanna tveggja. Innihald samningsins hefur ekki verið opinberað en franska dagblaðið Le Monde segir að eftir því sem Sergej Sjojgu, varnarmálaráðherra Rússlands, hafi upplýst þá sé markmið samningsins að styrkja tengsl ríkjanna í varnarmálum. Hann er sagður hafa sagt að Mið-Afríkulýðveldið væri áhugaverður samstarfsaðili í Afríku.
Borgarastríð hefur staðið yfir í Mið-Afríkulýðveldinu áratugum saman en ótal hópar uppreisnarmanna berjast gegn stjórnvöldum og hver öðrum. Engin framþróun er í landinu vegna átakanna og fjárfestar halda sig víðs fjarri þessu stríðshrjáða ríki þrátt fyrir að þar sé mikið af gulli, demöntum og úrani enda er staða öryggismála í landinu vægast sagt slæm. Thierry Vircoulon, sérfræðingur í málefnum Mið-Afríku hjá International Crisis Group, sagði í samtali við Financial Times að Rússar væru að styrkja stöðu sína í Afríku og Mið-Afríkulýðveldið sé ein af leiðunum inn í álfuna. Ríkisstjórn landsins sé veikburða og því auðvelt að eiga við hana.
Sama dag og Rússar skrifuðu undir nýja samninginn við Mið-Afríkulýðveldið skrifuðu þeir undir samstarfssamning um hernaðarmál við stjórnvöld í Búrkína Fasó. Áður höfðu þeir gert viðlíka samninga við Eþíópíu, Gíneu, Lýðstjórnarlýðveldið Kongó og Mósambík. Þá selja Rússar vopn til Nígeríu og Angóla og koma að námuvinnslu þar. Rússar hafa ekki farið leynt með áhuga sinn á að seilast til áhrifa í Afríku en Pútín og aðrir embættismenn í Rússlandi þegja hins vegar þunnu hljóði um leynileg störf rússneskra málaliða í álfunni og önnur umsvif sem þola illa dagsljósið.