Laufey Ólafsdóttir var kosin sem fulltrúi Sósíalista í stjórn Félagsbústaða í gær. Það væri vart í frásögur færandi nema vegna þeirrar staðreyndar að Laufey er einnig leigjandi hjá Félagsbústöðum.
Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands, segir atburðinn fordæmalausan, sögulegan og áfanga að því markmiði að hinir verr settu fái aukin völd og sæti við borðið þar sem ákvarðanir séu teknar.
Laufey sagði við Eyjuna að sjónarmið hennar sem leigjanda og fulltrúa stjórnmálaflokks færu vel saman:
„Það er réttlætismál að rödd leigjenda heyrist við stjórnarborðið. Eitt af baráttumálum Sósíalista var að koma fólkinu sem ákvarðanir eru teknar um að borðinu og þetta er stór áfangi að því markmiði. Sem leigjandi get ég ekki annað en glaðst einnig. Í gegnum tíðina hafa ýmsar breytingar verið gerðar á Félagsbústöðum sem hafa ekki alltaf komið vel við leigjendur og þekki ég það vel á eigin skinni. Með þessu mun rödd okkur vonandi heyrast betur,“
segir Laufey.
Hún tekur undir gagnrýni Kolbrúnar Baldursdóttur, oddvita Flokks fólksins í Reykjavík, sem hefur í borgarstjórn kallað eftir úttekt á viðhaldsþörf og könnun á þjónustu og viðmóti Félagsbústaða.
„Ég sem leigjandi hef aldrei verið spurð út í neitt hvað varðar þjónustu Félagsbústaða. Ég hef heyrt í mörgum öðrum leigjendum öðrum og þar er sama sagan. Til dæmis má nefna um viðmótið og þjónustuna, að síminn hjá viðhaldsdeildinni er opinn í tvo tíma á dag. Þangað er erfitt að ná inn, helst þarf að senda tölvupóst, sem ekki alltaf er svarað. Það er ekki hægt að ná í neinn utan þessa símatíma. Svipaða sögu er að segja af innheimtudeildinni, sem er opin í klukkutíma á dag. Aðgengið og þjónustustigið er því ansi lítið og alls ekki eins og það ætti að vera.“
Meirihlutinn í borgarstjórn vísaði tillögum Kolbrúnar til stjórnar Félagsbústaða. Kolbrún og Vigdís Hauksdóttir, fulltrúi Miðflokksins, segja það skrýtin vinnubrögð að setja það í hendur fyrirtækisins sjálfs, að rannsaka ávirðingar og kvartanir sem borist hafa á hendur þess og spyrja hvort niðurstöðurnar verði trúverðugar:
„Það ætti að vera flestum ljóst að ekki gengur að ætla fyrirtæki að rannsaka sjálft sig, rannasaka hvort alvarlegar ávirðingar á hendur þess eigi við rök að styðjast. Hér er verið að ræða um að meta viðhaldsþörf í kvörtunarmálum og gera könnun á viðmóti meðal annars vegna kvartana um dónaskap, fordóma, hunsunar svo fátt eitt sé nefnt. Að ætla fyrirtækinu að rannsaka þetta sjálft er fordæmalaust. Er reiknað með að niðurstöður slíkrar rannsóknar verði trúverðugar? Þessi ákvörðun meirihlutans er vond ákvörðun og mun gera fátt annað en valda áframhaldandi vonbrigði og reiði þeirra sem teljast sig þolendur í þessum málum,“
segir Kolbrún.
Kolbrún mun þó eiga hauk í horni í stjórn Félagsbústaða:
„Algerlega. Þegar þetta kemur inn á borð til okkar mun ég auðvitað taka þetta upp . Hitt fólkið í stjórninni mun þurfa að horfast í augu við mig hvað þetta varðar, það er óumflýjanlegt,“
segir Laufey.