„Reksturinn verður þungur þegar verkefnum fækkar og launin hækka. Hvað á þá að gera?” spyr Leifur B. Dagfinnsson, stjórnarformaður Truenorth. Í samtali við Morgunblaðið tekur hann fram að tekjur fyrirtækisins af vinnu við erlenda kvikmyndagerð hafa hrunið um einn milljarð frá árinu áður, sem hann telur hreinlega lélegt.
Leifur segir að ákvörðun Breta að ganga úr Evrópusambandinu og sterkt gengi krónunnar hafi haft slæm áhrif á kvikmyndaframleiðslu hérlendis.
„Síðasta ár var annus horribilis í rekstrinum. Hreinlega lélegt ár miðað við síðustu sex ár. Því verður ekki lýst á annan veg,“ segir Leifur og veltir fyrir sér hvort erlent kvikmyndagerðarfólk sé einfaldlega að missa áhugann á Íslandi um þessar mundir.
„Annaðhvort hefur Ísland verið ofnotað eða að fyrirtækin telja of dýrt að koma hingað og mynda á Íslandi. Það er bara þannig. Við erum ekki samkeppnishæf sem stendur,“ segir hann.
Á meðal þeirra erlendu verkefna sem Truenorth hefur komið að síðustu árin eru Black Mirror, Fast & Furious 8, Justice League, The Secret Life of Walter Mitty, Jason Bourne, Blade Runner 2049 og Star Wars myndirnar Rogue One, The Force Awakens og The Last Jedi.