Kamil Grosicki, leikmaður Hull City á Englandi, var við það að yfirgefa félagið á lokadegi félagaskiptagluggans.
Grosicki hafði náð samkomulagi við tyrknenska félagið Bursaspor og átti að gangast undir læknisskoðun eftir að hafa flogið til Tyrklands.
Samningurinn var tilbúinn fyrir Grosicki til að skrifa undir áður en vængmaðurinn hvarf og varð ekkert úr skiptunum.
,,Félagið okkar hafði náð samkomulagi við Kamil Grosicki og Hull um tveggja ára samning,” sagði í tilkynningu félagsins.
,,Síðustu nótt þá kom leikmaðurinn til okkar og átti að fara í læknisskoðun í morgun.”
,,Samningurinn var tilbúinn og var þetta komið á það stig að hann átti að skrifa undir. Hann yfirgaf hins vegar borgina án þess að gefa okkur útskýringu.”