Fyrsta Silfur haustvertíðarinnar verður á dagskrá á RÚV nú á sunnudagsmorgun klukkan 11. Þátturinn verður eins og undanfarið í stjórn minni og Fanneyjar Birnu Jónsdóttur. Það er af nógu að taka í íslenskri pólitík – Alþingi verður skilst mér sett 11. september. Í fyrsta þættinum ræðum við horfurnar meðal annars í efnahags- og kjaramálum. Af gestum má nefna Drífu Snædal og Þorstein Víglundsson.
Í síðari hluta þáttarins verður svo sýnt bráðskemmtilegt viðtal við bandaríska tónlistarmanninn David Crosby. Hann liggur ekki á skoðunum sínum varðandi stjórnmál, Trump, fíkniefni, félaga sína í hljómsveitinni Crosby, Stills, Nash & Young – og tónlistina sem hann segir að sé hápunktur mannlegrar sköpunar.