Það getur farið í taugarnar á mörgum samviskusömum ökumönnum að sjá samborgara sína við stýrið sleppa því að nota stefnuljós. Allur galdurinn er ein lítil hreyfing með fingrinum sem samt virðist vera svo mörgum ökumönnum ofviða.
Nú er í sjónmáli lausn fyrir þá fjölmörgu kærulausu ökumenn sem þráast við að nota stefnuljós. Rafbílaframleiðandinn Tesla er með í þróun búnað sem skynjar það ef ökumenn eru að fara beygja. Svona búnaður myndi vitanlega aldrei virka nema stefnuljósið sé gefið á réttum tíma, áður en ökumaður fer í beygjuna, en ekki þegar hann er byrjaður að beygja. Skynjarinn myndi þá setja stefnuljósið á fyrir ökumanninn og gildir þá einu hvort hann er að fara að skipta um akstursstefnu eða skipta um akrein.
Frekari upplýsingar um þróunina og það hvernig búnaðurinn virkar nákvæmlega liggja ekki fyrir en Tesla er búið að sækja um einkaleyfi, að því er Electrek greinir frá.
Sjálfakandi bílar eru á næsta leiti en Electrek segir að búnaðurinn sé í þróun fyrir mönnuð ökutæki sem hljóta að teljast góð tíðindi.