Þetta virkar hreinlega brjálæðislegt, komandi frá forsætisráðherra Ísraels. Ég hélt fyrst að þetta hlyti að vera falskar fréttir, en svo er ekki. Benjamín Netanjahu tvítaði þessu í alvörunni í fyrradag.
Hinir veiku molna sundur, þeim er slátrað, þeim er útrýmt úr sögunni, meðan hinir sterku, til góðs eða ills, lifa af. Hinir sterku njóta virðingar, þeir geta myndað bandalög, og á endanum er friður saminn við hina sterku.
Þetta er mikil speki og margt sem má um hana segja. En gyðingar voru einmitt í þeirri stöðu að vera slátrað fyrir ekki nema þremur aldarfjórðungum. Á þeim tíma var Hitlers-Þýskaland sterkt og gat myndað bandalög – meðal annars við Sovétríki Stalíns.
Maður á að fara varlega með Hitlers-líkingar, en samt. Þeir sem ekki þekkja söguna eru dæmdir til að endurtaka hana. En á það er bent víða að Adolf Hitler hafi sagt í ræðu í München 1923.
Öll náttúran er ógurleg barátta milli hins sterka og hins veika, eilífur sigur hinna sterku yfir hinum veiku.
Hugmyndir af þessu tagi eru í anda þess sem kallast sósíal-darwinismi. Af honum fer ekki gott orð.