Stjórnstöð Strætó óskaði eftir aðstoð lögreglu rétt fyrir klukkan 07.30 í morgun eftir að til ágreinings kom milli strætóbílstjóra og farþega. Í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér kemur fram að bílstjórinn hafi viljað skoða strætókort farþegans betur.
Farþeginn var ekki sáttur við þetta, sagði að bílstjórinn gerði þetta ítrekað og vildi meina að um kynþáttafordóma væri að ræða. Að sögn lögreglu varð úr að farþeginn ætlaði að fá far með öðrum strætó.
Morguninn virðist hafa verið nokkuð tíðindalítill hjá lögreglunni. Upp úr átta var tilkynnt um innbrot í bifreið í miðborginni og um klukkustund síðar bárust lögreglu margar tilkynningar um mjög aðfinnsluvert aksturslag bifreiðar á Vesturlandsvegi. Í ljós kom að ökumaðurinn var ofurölvi kona á fimmtugsaldri.
„Vegna ástands hennar og hegðunar þurfti að beita hana lögreglutökum og handjárnum. Eftir sýnatöku var konan vistuð í fangageymslu,“ segir lögreglan.