Erna Kristín Stefánsdóttir stofnaði á dögunum hópinn Jákvæð líkamsímynd fyrir fólk sem eyðir öllu lífi sínu í það að hata líkama sinn. Hópurinn er opin öllum og vill Erna hvetja fólk til þess að læra að elska líkama sinn eins og hann er.
„Staðlaðar staðalímyndir samfélagsins og heimsins sem hafa sagt okkur allt okkar líf hvernig við eigum að líta út og hvað flokkast undir kynþokkafullt og fallegt hefur gert það að verkum að nánast önnur hver kona þjáist af líkamsímyndunarröskun og átröskunarsjúkdómum. Óraunhæfar kröfur á líkaman sem konur og karlar eltast við allt sitt líf er hræðileg staðreynd. Mig langar að reyna með bestu getu að brjóta þessar staðalímyndir, fyrir öll kyn. Hvort sem það mun aðeins hjálpa einni manneskju eða hundrað þá er það þess virði,“ segir Erna Kristín í samtali við Bleikt.
„Ég hef náð langt í minni sjálfsást og þetta er frelsi sem er engu líkt og óska ég því öllum að komast á þennan stað.“
Erna hefur undanfarið unnið mikið með sjálfsást á Instagram reikningi sínum (Ernuland) og fann hún að áhuginn var mikill og ákvað hún því að stofna hópinn Jákvæð líkamsímynd á Facebook.
„Jákvæð líkamsímynd er eitt af því mikilvægasta sem fólk getur tileinkað sér. Síðan er gerð til þess að fræða, hvetja og hjálpa fólki að komast skrefinu nær að elska og bera virðingu fyrir líkamanum í hvaða formi sem hann kemur í. Hópurinn er opinn öllum og hafa allir leyfi til þess að deila ráðum, vangaveltum, reynslusögum og bara hverju sem er jákvætt og uppbyggjandi.“
Erna segir mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir vandamálinu.
„Ungar konur sem og drengir þróa óheilbrigða líkamsímynd með sér í gegnum árin sökum staðalímynda í auglýsingum, sjónvarpsþáttum og samfélagsmiðlum. Því miður eyða allt, allt of margir öllu lífi sínu í stríði við líkama sinn sem byggist á vanvirðingu, hatri og efasemdum um eigin líkama og samþykki samfélagsins. Hjálpumst að og lærum að bera virðingu fyrir líkama okkar hvernig sem hann er, hvenær sem er og brjótum staðlaðar líkamsímyndir fyrir fullt og allt!“