Skúli Mogensen, forstjóri og eini hluthafi WOW air, staðfestir við Fréttablaðið í dag að þegar hafi nokkrir erlendir fjárfestar skráð sig fyrir verulegum hlut í skuldabréfaútboði félagsins. Ráðgert er að útboðið klárist innan nokkurra vikna, en fjárfestar munu einnig fá kauprétt að hlutafé í félaginu þegar það verður skrá á markað, sem nemur helmingi af höfuðstól skuldabréfanna. Munu þeir sem nýta kaupréttinn fá bréfin á 20 prósent lægra gengi en skráningargengi félagins.
Skuldabréfin munu bera um níu prósent vexti og segir Skúli að kjörin séu ásættanleg miðað við markaðsaðstæður.
Félagið verður skráð á markað á næstu 18 til 24 mánuðum og telur Skúli að félagið verði fullfjármagnað fram að þeim tíma eftir að útboðinu lýkur.
Svo virðist sem að kaupréttinum hafi verið bætt við tilboðið með litlum fyrirvara, þar sem hann var ekki tilgreindur í drögum að fjárfestakynningu Pareto, sem sér um útboðið. Ávallt lá þó fyrir að skilmálar þess gætu breyst í samræmi við viðtökurnar.