Málarameistarafélagið
Málarameistarafélagið var stofnað fyrir 88 árum. Stofnfundur félagsins var haldinn í baðstofu iðnaðarmanna við Vonarstræti í Reykjavík, þann 26. febrúar árið 1928. Tilgangur félagsins var meðal annars sá að efla samvinnu meðal málarameistara og stuðla að menningu og menntun stéttarinnar, gæta í hvívetna hagsmuna félagsmanna og vera málsvari félagsmanna gagnvart almenningi og hinu opinbera.
Óhætt er að segja að þessi atriði séu í fullu gildi enn þann dag í dag og afar mikilvægt er að gæta að fagmennsku innan málarastéttarinnar og stuðla að því að einungis aðilar með tilskilin réttindi sinni þessum mikilvægu verkefnum sem svo mjög snerta hag almennra borgara, fyrirtækja og stofnana.
Ötullega hefur verið unnið að hagsmunamálum félagsins frá upphafi og hafa margir lagt þar hönd á plóginn í gegnum tíðina í hinum ýmsu trúnaðarstörfum. Mannaskipti í stjórn hafa ekki verið mjög tíð í gegnum árin og má segja að í þeim efnum hafi ríkt stöðugleiki með hæfilegri endurnýjun.
Málarameistarafélagið hefur unnið ötullega að verkmenntun málarastéttarinnar í gegnum tíðina og árið 1953 kom félagið því til leiðar að málaradeild var stofnuð innan Iðnskólans í Reykjavík.
Málarameistarafélagið er félagi í Meistaradeild Samtaka iðnaðarins (SMI) og þar með aðili að Ábyrgðarsjóði MSI. Tilgangur ábyrgðarsjóðsins er meðal annars sá að skapa traust á milli verkkaupa og verktaka og tryggja viðskiptavinum félagsmanna MSI eins og kostur er að vinna sem framkvæmd er af félagsmönnum MSI sé í samræmi við skriflegt samkomulag um verkið og góð fagleg vinnubrögð. Standist vinna af einhverjum ástæðum ekki þær kröfur sem viðskiptavinur gerir til verksins getur hann lagt málið fyrir Úrskurðarnefnd MSI.
Flest fögnum við komu farfuglanna á vorin enda eru þeir öruggur fyrirboði þess að sumar sé í vændum. Hins vegar eru til óæskilegir farfuglar svonefndir en það eru óvandaðir aðilar sem taka að sér ýmis viðhaldsverk, þar á meðal málningarvinnu, án þess að hafa til þess tilskilin réttindi.
Í langflestum tilfellum er íbúðarhúsnæði fjölskyldunnar stærsta eign hennar og oft á tíðum það sem allt fjármálakerfi fjölskyldunnar snýst um. Það er því mjög mikilvægt fyrir þá sem ætla að sinna viðhaldi og fá til þess utanaðkomandi aðila, að þeir athugi vel hvort þeir aðilar sem þeir eiga viðskipti við séu þeir fagmenn sem þeir segjast vera og uppfylli þær skyldur og ábyrgð sem fagréttindunum fylgja. Því miður eru allt of mikil brögð að sviksamlegum verkum með afar slæmum afleiðingum fyrir verkkaupa. Til að fyrirbyggja slíkt er mikilvægt að eiga eingöngu viðskipti við raunverulega fagmenn. Mikilvægt er að fá skrifleg tilboð og ef um stærri framkvæmdir er að ræða, að gerður sér skriflegur samningur þar sem fram kemur um hvað er samið, verð og svo framvegis.
Már segir að miklir og góðir atvinnumöguleikar séu í faginu og skortur sé á málarameisturum. Hvetur hann ungt fólk til að kynna sér þessa iðngrein sem býður upp á fjölbreytt og skemmtilegt starfsumhverfi og góða framtíð á vinnumarkaðnum. Sjá nánar um nám í málaraiðn hér.
Á heimasíðu Málarameistarafélagsins, malarar.is, er að finna upplýsingar um málarameistara sem eru með sín réttindamál á hreinu og standa undir nafni með vönduðum vinnubrögðum. Einnig er þar að finna ítarlegar upplýsingar um hvernig best er að standa að því að fara í verklegar framkvæmdir, hvað þarf að hafa í huga og hvað ber að athuga.
Mögulegt er að setja inn beiðni um tilboð í verkefni á heimasíðunni og fá þá allir félagsmenn tilkynningu þar um. Þetta getur því sparað fólki tíma frá símhringingum ásamt því að sjálfsögðu að það tryggir sér áreiðanlegan verktaka með reynslu og ábyrgð á sínum verkum.
Málarameistarafélagið er til húsa að Borgartúni 35, 105 Reykjavík. Skrifstofa félagsins er opin á miðvikudögum frá kl. 10 til 16. Síminn er 568-1165 og netfang mmf@malarar.is
Heimasíða: malarar.is