Fjörtíu og tveggja ára gamall íslenskur karlmaður var handtekinn í Álaborg um síðustu helgi. Maðurinn, sem var að heimsækja kærustu sína sem búsett er í borginni, hlaut fangelsisdóm ytra árið 2015. Þegar hann hafði afplánað dóminn var honum gert að yfirgefa Danmörku og var óheimilt að koma inn í landið í 12 ár. Ástin reyndist þó skynseminni yfirsterkari og komst lögreglan á snoðir um ferðir hans. Hann var leiddur fyrir dómara strax daginn eftir og var dæmdur í 20 daga fangelsi. Þegar Íslendingurinn hefur afplánað þann dóm verður honum vísað úr landi. Danska blaðið Nordjyske greinir frá.