fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Ný vonarstjarna Demókrata vann óvæntan sigur í Flórída

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 1. september 2018 13:30

SANTA MONICA, CA - MARCH 10: Tallahassee Mayor Andrew Gillum attends TOMS, Rock The Vote And Bad Robot Host "VOTE2016" Conversation Regarding 2016 Election at Bad Robot on March 10, 2016 in Santa Monica, California. (Photo by Michael Kovac/Getty Images)

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ný stjarna er að rísa innan Demókrataflokkins í Bandaríkjunum, hinn tæplega fertugi Andrew Gillum sem býður sig fram til ríkisstjóraembættis í Flórída nú í haust. Vinsældir Gillum, sem ólst upp í mikilli fátækt, eru miklar og margir sjá framtíðarforseta í honum. Donald Trump finnst sér ógnað og hefur þegar gagnrýnt Gillum á sinn einstaka máta.

Ólst upp í fátækt

Andrew D. Gillum er aðeins 39 ára gamall en með mikla stjórnmálareynslu og hefur gegnt embættum í heimaborg sinni Tallahassee, höfuðborg Flórída-fylkis, síðan 2003. Þá, aðeins 23 ára gamall, varð hann yngsti fulltrúinn til að taka sæti í borgarstjórn.

Gillum, sem er þeldökkur, ólst upp við þröngan efnahag í sjö systkina hópi. Faðir hans starfaði sem byggingaverkamaður og móðirin keyrði skólabíl. Gillum var fyrstur til að útskrifast úr háskóla í sinni fjölskyldu og þar kynntist hann eiginkonu sinni, R. Jai, og eiga þau þrjú lítil börn. Strax í menntaskóla varð hann áberandi og í háskóla tók hann virkan þátt í stúdentapólitíkinni.

Eftir að hann var kjörinn í óflokksbundna borgarstjórn hefur hann barist fyrir félagslegu réttlæti, endurskoðun á réttarkerfinu, atvinnuöryggi og tækniframförum í skólum og stofnunum borgarinnar. Réttindi innflytjenda og baráttan gegn almennri byssueign hafa einnig verið fyrirferðarmikil í stefnu hans. Í hans tíð hefur ofbeldisglæpum í Tallahassee fækkað um átta prósent. Árið 2014 bauð hann sig fram sem borgarstjóra Tallahassee og sigraði með miklum yfirburðum, hlaut alls 76 prósent atkvæða.

Óvæntur sigur

Í mars í fyrra ákvað Gillum að taka af skarið og bjóða sig fram til ríkisstjóra Flórída fyrir Demókrataflokkinn og sigraði mjög óvænt þingmanninn Gwen Graham í prófkjöri á þriðjudag. Með því varð Gillum fyrsti þeldökki frambjóðandinn til ríkisstjóra í fylkinu. Um áratuga skeið var Flórída eitt af höfuðvígjum Demókrataflokksins en sú staða hefur breyst mikið og Repúblikanar hafa haldið embætti ríkisstjóra síðan 1999. Í kosningunum, sem fram fara þann 6. nóvember næstkomandi, mun Gillum mæta Ron DeSantis, fulltrúadeildarþingmanni Repúblikanaflokksins. Þegar hafa verið gerðar þrjár kannanir á fylgi frambjóðendanna sem sýna að mjög mjótt er á munum.

Framboði Gillum hefur vaxið fiskur um hrygg og nú er að myndast mikil stemning í kringum það. Margir sjá þarna framtíðarleiðtoga, ekki aðeins Flórída heldur Bandaríkjanna allra og vilja sumir segja að innkoma hans á stóra sviðið minni töluvert á það þegar ungur Barack Obama gerði það árið 2005. Þremur árum síðar var hann kjörinn forseti Bandaríkjanna.

„Misheppnaður sósíalisti“ að mati Trump

Í nóvember verður kosið um fjölda embætta og eru ríkisstjórakosningarnar í Flórída þær sem flestir fylgjast grannt með. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur því sett sitt lóð á vogarskálarnar og uppnefnt Andrew Gillum í leiðinni.

Á miðvikudagsmorgun, eftir að úrslit prófkjörs Demókrata voru ljós, kom Gillum fram í viðtölum hjá CNN og MSNBC. Þar benti hann á að fólk yrði að vera á varðbergi gagnvart Trump sem „feldi sig í skuggunum“ og væri með puttana í framboðinu í Flórída. En umræðan mætti ekki snúast um það. Gillum sagði:

„Við verðum að tala til Flórídabúa sem hafa misst trú á hinu pólitíska ferli. Að tala aðeins um Donald Trump, og að minna fólk á hversu slæmur hann er og hversu óhæfur hann er til embættis síns hjálpar fólki ekkert við að ná endum saman, hjálpar því ekkert til að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu, góðri menntun, 21. aldar samgöngum og hreinu umhverfi.“

Forsetinn svaraði honum kokhraustur með tísti:

„Þingmaðurinn Ron DeSantis vann ekki bara prófkjör Repúblikana auðveldlega heldur verður draumur fyrir hann að mæta andstæðingi sínum í nóvember … misheppnaður sósíalistaborgarstjóri sem heitir Andrew Gillum sem hefur leyft glæpum og öðrum vandamálum að grassera í borg sinni. Þetta er ekki það sem Flórída vill eða þarfnast.“

DeSantis sjálfur hellti síðan olíu á eldinn í anda Trump þegar hann biðlaði til kjósenda í Flórída og sagði: „Don’t monkey this up.“ Hafa margir brugðist reiðilega við því og sakað DeSantis um kynþáttahatur.

Jessica Vaugn og eiginmaður hennar Nilesh

Blanda af Obama og Bernie Sanders

Jessica Vaughn starfar fyrir Demókrataflokkinn í Tampa-borg í Flórída og er dyggur stuðningsmaður Andrews Gillum. DV ræddi við hana um framboðið og ummælin.

„Allir hérna í framboðinu eru himinlifandi og líka mjög þreyttir. En við vitum að það er mikil vinna fyrir höndum og við erum að reyna að virkja þá sem hafa ekki verið starfandi í framboðinu en hafa sýnt vilja til þess. Við erum að skipta um fókus núna og einbeita okkur að komandi baráttu.“

Af hverju ætti Gillum að verða næsti ríkisstjóri?

„Eftir að Donald Trump var kjörinn forseti var það augljóst að Bandaríkjamenn voru opnir fyrir popúlisma og þreyttir á að elíta stjórnaði þessu landi. Þeir héldu ranglega að hann væri svarið við því. Núna erum við að sjá frambjóðendur á vinstri vængnum, eins og til dæmis Bernie Sanders og Andrew Gillum, sem tala máli þessa fólks. Tala fyrir menntamálum, heilbrigðisþjónustu og öllu því sem skiptir almenning máli. Gillum berst fyrir hagsmunum fólksins en ekki stórfyrirtækja og þrýstihópa. Það er nákvæmlega það sem skiptir máli.“

Kom sigur Gillum ykkur á óvart?

„Að einhverju leyti, en ekki mjög. Hann stýrði kosningabaráttunni vel og nýtti grasrótina. Við töluðum við alla hugsanlega kjósendur, ekki aðeins þá sem eru með heimasíma. Einnig notuðum við tengiliði okkar úr kosningabaráttu Bernie Sanders sem studdi Gillum dyggilega.“

Hvað fannst þér um þau ummæli Trump forseta, að Gillum væri „misheppnaður sósíalisti“?

„Ummælin benda sterklega til þess að hann sé hræddur við vinsældir Gillum. Orðið sósíalisti hefur ekki sömu meiningu og víða annars staðar, hér er það skammaryrði og því virka ummæli Trump örvæntingarfull eins og svo mörg önnur.“

Er Gillum næsti Obama?

„Hann er nokkurs konar blanda af bæði Bernie Sanders og Obama. Hann hefur persónutöfra Obama en er framsækinn eins og Sanders. Hann nær að sameina fólk sem studdi þessa tvo menn og stuðningsmenn Hillary Clinton einnig. Þess vegna berjumst við fyrir því að hann nái kjöri … alveg launalaust!“ segir Jessica og hlær.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Í gær

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“