Bardagakappinn Gunnar Nelson leitar nú að andstæðingi til að berjast við en hann hefur nú að mestu jafnað sig á meiðslunum sem hann varð fyrir fyrr á þessu ári. Í viðtali við vefmiðilinn MMA fréttir greinir Gunnar frá því að hann hafi boðist til þess að mæta Argentínumanninum Santiago Ponzinibbio aftur en eins og margir vita rotaði sá argentínski Gunnar á síðasta ári.
Gunnar meiddist á hné í apríl á þessu ári og neyddist til að hætta við fyrirhugaðan bardaga gegn Neil Magny á UFC bardagakvöldinu í Liverpool í maí. Í kjölfarið fór Gunnar í aðgerð á liðþófa og er nú byrjaður að æfa á fullu. Hann sér því fram á bjartari tíma og er fullur sjálfstrausts.
Gunnar vonast til að berjast á UFC 230 í Madison Square Garden þann 3. nóvember og segist í samtali við MMA fréttir vera tilbúinn að mæta hverjum sem er.