„Ég hugsa um hana þegar hún kemur til mín. Ég sakna hennar þegar söknuðurinn kviknar. Ég græt ef ég vil gráta. Ég gef henni rými til þess að fylgja mér. Ég leyfi henni og minningunum um hana að fylgja mér.“ Þetta ritar Arnar Sveinn Geirsson, leikmaður úrvalsdeildarliðs Vals í knattspyrnu í einlægum pistli sem birtist á vef Vísis í dag. Í pistlinum lýsir hann þeim tilfinningum sem ungur piltur gekk í gegnum við að missa móður sína 11 ára gamall og hvernig hann ásakaði sjálfan sig fyrir það sem hann taldi vera „röng“ viðbrögð við missinum.
Móðir Arnars, Guðrún Helga Arnardóttir var aðeins 38 ára gömul þegar hún lést af völdum krabbameins árið 2003. Arnar Sveinn var þá 11 ára gamall.
„Ég varð talsvert hræddur þegar ég var spurður að því hvaða minningar ég ætti af mömmu. Hvernig ég hugsaði um mömmu. Hræðslan kom af því að þegar ég fór að hugsa út í það reyndist mér það mjög erfitt. Erfitt á þann hátt að ég mundi hreinlega mjög lítið. Minningarnar voru fáar. Hugsanirnar hlutlausar. Hvers konar sonur er ég, að muna ekki eftir eigin móður? Hvers konar sonur er ég, að geta ekki rifjað upp alls konar minningar um mömmu? Elskaði ég hana ekki nóg? Sakna ég hennar ekkert? Er ég búinn að gleyma henni?“
Arnar Sveinn kveðst jafnframt hafa gagnrýnt sjálfan sig harkalega fyrir það sem hann taldi ekki vera „rétt“ viðbrögð og líðan.
„Í mínum augum var ég hræðilegur sonur sem hélt ekki uppi minningu mömmu. Hélt ekki uppi heiðri hennar. Ég skammaði sjálfan mig fyrir það að hugsa ekki nóg til hennar. Ég fékk samviskubit yfir því að ég færi ekki að gráta alltaf þegar ég talaði um hana. Yfir því að ég saknaði hennar ekki öllum stundum. Yfir því að ég væri ekki nógu duglegur að hugsa um hana. Á sama tíma var ég að berjast við að vera jákvæður og glaður öllum stundum. Dæmið gekk ekki upp. Ég sá því ekki neitt annað í stöðunni en að hætta að sakna. Hætta að gráta. Hætta að hugsa. Þannig væri lang best að tækla þetta til þess að geta verið jákvæður og glaður og hamingjusamur. Og það gerði ég. Hægt og rólega fór ég að gleyma.“
Hann lýsir því hvernig hann lokaði á ákveðnar tilfinningar og í kjölfarið urðu minningarnar, bæði þær góðu og þær slæmu sífellt óljósari.
„Ég var búinn að gleyma því að það að minnast mömmu, hugsa um mömmu og sakna mömmu var ekki ástæða þess að mér leið illa. Mér leið illa af því að ég ákvað að hleypa bara gleði og jákvæðni að. Sem breyttist í falska jákvæðni og gleði. Sem breyttist í falska hamingju. Mér leið illa af því að ég leyfði mér ekki að finna til. Mér leið illa af því að ég var ekki tilbúinn að taka á móti lífinu og öllum þeim tilfinningum sem því fylgir. Samviskubitið átti engan rétt á sér.“
Það var ekki fyrr en Arnar Sveinn leyfði sér að vera óhræddur við að sakna, hlæja, gráta og hugsa um móður sína að minningarnar byrjuðu að flæða upp á yfrborðið.
„Hægt og rólega fer ég að muna. Muna hversu mikið hún gaf mér og hversu mikið ég gaf henni. Muna hvað hún skildi mikið eftir. Muna hvað ég elskaði hana og að ég mun alltaf elska hana. Muna að ég sakna hennar alveg ofboðslega. Muna að söknuðurinn mun aldrei fara. Muna að ég er svo langt í frá búinn að gleyma henni.“