Bobby Madley, fyrrverandi dómari í ensku úrvalsdeildinni, var rekinn vegna Snapchat-myndbands á dögunum. Það kom mörgum á óvart þegar tilkynnt var að Madley myndi ekki dæma í úrvalsdeildinni í vetur en hann hafði dæmt í deildinni frá 2013.
The Sun greinir frá því að Madley hafi verið rekinn eftir að Snapchat-myndband, þar sem hann virðist gera lítið úr fötluðum einstaklingum, fór í umferð.
Það var fyrr í þessum mánuði að tilkynnt var að Madley myndi hætta að dæma af persónulegum ástæðum. Það virðist ekki vera alveg rétt ef marka má The Sun. Madley er sagður hafa tekið mynd af fötluðum einstaklingi þar sem hann lét „móðgandi“ ummæli falla um viðkomandi.
Fylgjandi Madley á Snapchat tók skjáskot af skilaboðunum og sendi til yfirmanna hans hjá enska knattspyrnusambandið. Það varð til þess að Madley var rekinn.
Madley er sagður vera í viðræðum við forsvarsmenn norsku úrvalsdeildarinnar um að taka að sér dómgæslu þar. Madley, sem er 32 ára, á norska unnustu.