„Nýbakað bakkelsi á greiðari leið að almenningi en frosinn sænskur matur,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, í samtali við Fréttablaðið.
IKEA ætlar að stækka bakaríið í verslun sinni í Kauptúni umtalsvert, en undanfarin misseri hafa sælkerar getað keypt kleinur, ástarpunga, brauð, ostaslaufur og kanilsnúða í bakaríinu.
Þórarinn segir að vöruframboðið verði aukið verulega og má því ætla, miðað við núverandi framboð, að um verði að ræða bakarí í fullri stærð.
Þórarinn segir að stækkunin verði á kostnað matvörurverslunarinnar við hlið bakarísins, sænsku búðarinnar svokölluðu, þar sem má meðal annars nálgast kjötbollur, pylsur, pizzadeig og fleira góðgæti.