Kjarninn greinir frá því að Þórsmörk ehf., sem er eigandi útgáfufélags Morgunblaðsins, hafi tapað 267 milljónum króna í fyrra. Félagið Hlynur A, sem á 16,45 prósenta hlut í Þórsmörk ehf., og er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, tapaði alls 43,9 milljónum árið 2017, samkvæmt ársreikningi þess félags.
Þórsmörk ehf., og Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, hafa ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2017. Árvakur er eina eign Þórsmerkur og því hafa upplýsingar í ársreikningum félaga sem eiga í Þórsmörk sýnt fram á tap Árvakurs og var tap félagsins Hlyns A í Þórsmörk í samræmi við tap Árvakurs árið 2016, að því er kemur fram í Kjarnanum.
Árvakur rekur Morgunblaðið, mbl.is, Eddu-útgáfu og útvarpsstöðina K100 og nemur tap félagsins um 1,8 milljörðum króna frá því 2009, þegar nýir eigendur tóku við rekstrinum. Tap hefur verið á rekstri félagsins öll árin síðan 2009, utan ársins 2013, þegar félagið skilaði sex milljón króna hagnaði.