fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

„Það nístir inn að beini að geta ekki veitt henni heimili“

Leigði í örvæntingu herbergi í iðnaðarhúsi í Grafarvogi – deildu baði og eldhúsi með tíu karlmönnum

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 7. október 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er ekki búin að ákveða hvar ég gisti í nótt. Ég skipti nóttunum á milli heimila tveggja vinkvenna minna og móður minnar. Svona hefur lífið verið undanfarnar vikur og það er hræðileg tilfinning. Öryggisleysið veldur mér mikilli vanlíðan. Ég reyni að bera mig vel en ég er nokkuð viss um að dóttir mín skynjar ástandið. Sem betur fer er hún glöð og hress að eðlisfari. En það nístir inn að beini að geta ekki veitt henni heimili, ekki einu sinni sitt eigið rúm,“ segir Sylvana Sylvíudóttir. Hún er 22 ára gömul, einstæð móðir sem hefur verið á hrakhólum með húsnæði fyrir sig og Anastasíu Rós, þrettán mánaða gamla dóttur sína, bróðurpart ársins.

Sylvana er í helgarviðtali DV þar sem hún lýsir aðstæðum sínum og hversu erfiðlega gengur að finna húsnæði. Hér má lesa brot úr viðtalinu:

Drepa tímann í verslunarmiðstöðvum

Við sitjum yfir rjúkandi kaffibolla á veitingahúsi í Kringlunni. Anastasía Rós brosir stríðnislega til blaðamanns og reynir að klófesta allt sem hönd á festir á borðinu. Hún hefur mikinn áhuga á síma blaðamanns sem gegnir hlutverki upptökutækis í spjallinu. Hún setur í brýnnar þegar símanum er kippt í burtu en tekur gleði sína á ný þegar hún fær að handleika borðbúnaðinn „Hún er algjör grallari. Hún er búin að hafa eyrnabólgu í nokkra vikur og ég var með henni hjá lækni áðan. Samt er hún alltaf svo kát,“ segir Sylvana og brosir blíðlega til dóttur sinnar. Sú stutta brosir til baka en gefur síðan ákveðið til kynna að hún vilji fá pelann sinn. Henni verður fljótt að ósk sinni.

Þær mæðgur eru ekki ókunnar verslunarmiðstöðinni. Þegar veður er vont þá leitar Sylvana í Kringluna eða Smáralindina til að drepa tímann þar til að þær fara og finna sér næturstað. Í töskum á barnavagninum eru allar nauðsynjar sem barnið þarf, föt og matur. „Ef Anastasía Rós er veik þá er ég alltaf hjá mömmu en þar er afar lítið pláss og við sofum því í eldhúsinu. Mamma er líka í leiguíbúð og aðstæðurnar hjá henni eru erfiðar. Vinkonur mínar hafa síðan reynst mér ómetanlegar en plássið er af skornum skammti þar líka og ég vil ekki misnota velvild þeirra. Það er meira en að segja það að fá móður með ungbarn inn á heimilið. Anastasía Rós vaknar á nóttunni og er farin að brölta eldsnemma á morgnana,“ segir Sylvana.

Vinkonur mínar hafa síðan reynst mér ómetanlegar en plássið er af skornum skammti þar líka og ég vil ekki misnota velvild þeirra.

Sagt upp leigu í febrúar

Í byrjun árs var staða mæðgnanna allt önnur. Vandræði þeirra hófust þegar að leigusamningi þeirra var sagt upp 1. febrúar síðastliðinn. „Við vorum í þægilegri íbúð í Grafarvogi sem hentaði okkur vel. Eigandinn þurfti hins vegar að flytja sjálfur inn í hana og því þurftum við að víkja. Það var mikið áfall að vera með fimm mánaða barn og fá þær fréttir að ég þyrfti að flytja eftir nokkra mánuði. Ég fór strax að leita en hef alls staðar gripið í tómt,“ segir Sylvana. Hún hefur ekki tölu á þeim fjölda íbúða sem hún hefur leitast við að fá að skoða en yfirleitt grípur hún í tómt. „Ég hendist á milli bæjarhluta ef ég fæ að koma og skoða. Þetta er mikið stress því maður þarf að taka ákvörðun strax. Þegar ég hef gert það þá hefur annar hreppt íbúðina. Oftar en ekki velur leigusalinn frekar pör,“ segir Sylvana.

Í iðnaðarhúsnæði með tíu karlmönnum

Frá febrúar fram í maí gekk hvorki né rak í íbúðarleit mæðgnanna og áður en varði þurftu þær að flytja út úr íbúðinni. „Ég var orðin örvæntingarfull og þess vegna leigði ég herbergi í iðnaðarhúsnæði í Grafarvogi. Aðstæður þar voru ekki góðar en þessi lausn átti að vera tímabundin. Þetta var skárra en að vera á götunni. Við deildum eldhúsi og baðherbergi með tíu öðrum leigjendum, allt karlmönnum. Okkur leið ekki vel þar en ég átti ekki í nein önnur hús að venda,“ segir Sylvana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir