Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, skrifar í Morgunblaðið í dag hvar hún tjáir sig um deiluna um byggingu knatthúss í Kaplakrika. Segist hún vilja koma á framfæri staðreyndum málsins, vegna misvísandi umræðu.
Jón Rúnar Halldórsson, formaður FH, sagði við Vísi á dögunum að hann teldi víst að FH myndi hljóta allt að helmingi hærri upphæð en þær 790 milljónir sem ráðgert er að FH hljóti fyrir þrjú mannvirki á sínu svæði:
„FH á, fyrir utan knatthúsin, verulega fjármuni í þessum eignum. En til að klára málið og koma þessu máli öllu af stað eru þessar eignir sérteknar þarna fram. Síðan, þegar það kemur loks endanleg niðurstaða í eignaskiptinguna alla saman, þá loksins er hægt að skilgreina þetta. Og miðað við þessa upphæð sem við tókum að okkur að byggja knatthúsið fyrir; þessar 790 milljónir, þá eru það væntingar okkar miðað við okkar útreikninga að við eigum hátt í tvöfalt þessa upphæð sem um er að ræða, fyrir utan fótboltahúsin tvö.“
Í máli Rósu kemur hinsvegar fram að ekki muni koma til frekari greiðslna:
„Nú hefur Hafnarfjarðarbær gert rammasamkomulag við FH sem gerir ráð fyrir eignaskiptum, þ.e. að Hafnarfjarðarbær greiði alls 790 milljónir króna fyrir þrjú mannvirki á svæðinu, íþróttahús og tvö knatthús. Í staðinn byggi félagið sjálft þriðja knatthúsið á eigin ábyrgð fyrir þessa sömu fjárhæð. Í samningnum er kveðið á um að nýja húsið verði eign félagsins, í því felast eignaskiptin.
Einnig var samið um að sérstakur hópur, svonefndur Kaplakrikahópur, yrði skipaður og hefði meðal annars fjárhagslegt eftirlit með framkvæmdinni og að greiðslur frá bænum verði inntar af hendi eftir framvindu verksins. Hópurinn er skipaður óháðum sérfræðingum og fulltrúum bæjarins og félagsins. Verkefni hópsins er einnig að fullnusta eignaskiptin á Kaplakrika en skýrt skal tekið fram að ekki mun koma til frekari greiðslna til FH af hálfu bæjarfélagsins vegna þeirra.“
Rósa nefnir einnig að fjárútlátin til FH muni engin áhrif hafa á fjárhagsáætlun bæjarins:
„Fjárheimildin, 200 milljónir króna er til staðar og þótt hér sé verið að kaupa húsnæði í stað þess að framkvæma er einungis um tilfærslu innan málaflokks að ræða sem leiðir hvorki til hækkunar né lækkunar. Allt tal um annað er rangt.
Það eina sem vakir fyrir meirihluta bæjarstjórnar í þessu máli er að halda fjárhagsáætlun og ráðstafa þeim fjármunum sem fyrri meirihluti bæjarstjórnar hafði ákveðið til uppbyggingar á knattspyrnuaðstöðu í Kaplakrika. Fulltrúar meirihlutans eru með hagsmuni hafnfirskra skattgreiðenda í huga. Hér er ekki um neina eftirgjöf eða óeðlilega fyrirgreiðslu til FH að ræða.
Stefna núverandi meirihluta er að halda áfram á braut aga og aðhaldssemi í rekstri bæjarins. Hvergi verður hvikað í þeim efnum. Samningurinn við FH mun spara um 300 milljónir króna miðað við að bærinn hefði sjálfur staðið að byggingu hússins. Það eru aðalatriði málsins.“