Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Gunnlaugi Júlíussyni, sveitarstjóra, það hafi of oft gerst að starfsfólk ráðhússins hafi orðið fyrir óviðunandi framkomu fólks þegar það er að sinna störfum sínum. Þetta hafi verið í gegnum síma, við móttöku erinda eða úti á vettvangi.
„Óviðunandi framkoma gagnvart starfsfólki sveitarfélagsins er óásættanleg og á ekki að líðast.“
Er haft eftir Gunnlaugi sem bendir á að samskiptavandi sem þessi sé ekki einskorðaður við Borgarbyggð heldur sé ástandið svipað í mörgum sveitarfélögum.
Mannauðsstjóra sveitarfélagsins hefur verið falið að skrá tilvik sem þessi niður til að hægt sé að skoða starfsumhverfi þeirra sem verða fyrir þessum ónotum og starfsfólk geti rætt um þessi samskipti.
„Starfsmenn bæjarins eiga að finna það að þessi hegðun er ekki viðeigandi. Það er okkar verkefni að verja starfsumhverfi starfsmanna bæjarins. Ef við ræðum þessa hluti ekki og drögum fram það sem betur má fara þá breytist ekkert. Maður ætlast til þess að bæjarbúar séu kurteisir.“
Er haft eftir Gunnlaugi.