Það er mál manna að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, taki þátt í svo mörgum viðburðum, stórum og smáum, hér á landi að hann sé nú kallaður manna á meðal Guðni alls staðar. Forsetinn er sagður mæta alls staðar þar sem tekin verði mynd af honum og ekki saki að einhvers konar höfuðfat eða búningur sé í boði. Stundum sé forsetinn í svo mikilli tímaþröng að hann geti vart stoppað.
Þannig var tekið eftir því að forsetinn gekk út úr afmæli Norræna hússins rétt í þann mund sem forsætisráðherra var að hefja ræðu sína. Gestum þótti þessi tímasetning brottfarar forsetans úr afmælisveislunni næsta sérkennileg. Þó mun ekki anda köldu milli þessara tveggja fulltrúa „krúttkynslóðarinnar“ sem náð hafa æðstu metorðum á Íslandi.