Meirihluti íbúa Reykjavíkur er verulega jákvæður gagnvart göngugötum í miðborginni, samkvæmt nýrri viðhorfskönnun Maskínu ehf. fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur. Þetta kemur fram á heimasíðu Reykjavíkurborgar.
Maskína ehf. framkvæmdi annað árið í röð könnun meðal íbúa Reykjavíkur á viðhorfi til göngugatna í miðborginni. 71% svarenda segjast nú jákvæðir gagnvart göngugötunum en 11% eru neikvæðir.
Jákvæðnin eykst eftir því sem fólk fer oftar á göngugötusvæðið og eins í síðustu könnun eru íbúar í Miðborg og Hlíðum jákvæðastir allra. Ekki er mikill munur á afstöðu kynjanna til göngugatnanna þó eru fleiri karlar en konur sem eru mjög jákvæðir með þetta fyrirkomulag.
Alls telja 77% íbúa að göngugöturnar hafi jákvæð áhrif á mannlífið í miðborginni en 8% telja að þær hafa neikvæð áhrif.
Eftirfarandi götum hefur verið breytt í göngugötur undanfarin ár: Laugavegi og Bankastræti, milli Vatnsstígs og Þingholtsstrætis. Skólavörðustíg milli Bergstaðastrætis og Laugavegar. Austurstræti, Veltusundi og Vallarstræti. Pósthússtræti, milli Kirkjustrætis og Hafnarstrætis.
Aðspurðir um tímabil göngugatna, frá 1. maí til 1. október, segja tæplega 40% að tímabilið sé hæfilega langt, 30% vilja lengja tímabilið og 30% vilja stytta það.
Mun fleiri en áður vilja göngugötur allt árið eða 25% svarenda en var 12% í fyrra, en tæplega 5% segjast alfarið á móti göngugötum, sem er sama hlutfall og í síðustu könnun.
Könnunin fór fram á netinu dagana 26. júlí til 22. ágúst. Svarendur voru alls 768, af báðum kynjum á aldrinum 18-75 ára úr öllum hverfum borgarinnar. Skýrslan hefur verið kynnt í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar sem fylgdi henni eftir með samhljómandi bókun:
„Fulltrúar ráðsins lýsa ánægju með niðurstöður skýrslunnar. Skýrslan sýnir stöðugleika milli ára og áframhaldandi ánægju meirihluta borgarbúa með fyrirkomulagið. Það vekur athygli að eingöngu 11% borgarbúa lýsa óánægju með göngugötur. Ráðið mun vinna áfram að þróun verkefnisins en hafa í huga sveigjanleika með hliðsjón af sértækum þörfum. Markmiðið verði ætíð að bæta mannlíf og skapa áfram mannvænt umhverfi í miðborg.“
Tengill
Könnun – VIÐHORF TIL GÖNGUGATNA