Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar er ekki fylgjandi tillögu Hildar Björnsdóttur um gera bólusetningar að skilyrði fyrir inntöku barna á leiksskóla. Er það hennar mat að börnum sé þannig refsað vegna ákvarðana foreldra sinna.
Líkt og DV greindi frá í gær þá vill Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins gera bólusetningar að skilyrði fyrir inntöku barna á leikskóla og hyggst leggja þá tillögu fram í borgarstjórn. Í tilkynningu á facebook segir hún ástæðu til að bregðast við hættunni sem fylgir útbreiðslu mislinga. Samkvæmt WHO hafa mislingar náð gífurlegri útbreiðslu í Evrópu síðustu tvö ár.
Margar Evrópuþjóðir hafa brugðið á sama ráð. Þátttaka í almennum bólusetningum á Íslandi er ekki viðunandi að mati sóttvarnarlæknis. Minnki þátttaka enn frekar má búast við að hérlendis fari að breiðast út sjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil.
Fjölmargir lýsa yfir stuðningi við tillögu Hildar í athugasemdum undir færslunni en eins og gengur og gerist eru ekki allir sammála.
Heiða Björg er ein þeirra sem mæla á móti tillögunni í færslu á facebook.
„Mín skoðun er að við eigum ekki að svipta börn tækifæri á menntun á grundvelli ákvarðana foreldra. Alþingi getur skyldað fólk til að bólusetja öll börn eða metið það sem vanrækslu ef því er ekki sinnt. En að refsa barni fyrir slíkar ákvarðanir finnst mér afleit hugmynd og afskaplega gamaldags leið til að refsa fólki til hlýðni.“
Hefur yfirlýsing Heiðu Bjargar vakið heilmikil viðbrögð en hátt í hundrað manns hafa ritað athugasemd undir færsluna.
Heiða Björg bætir sjálf við í athugasemd að hún eigi „svo ónæmisbælt barn að það sé nóg að einhver hnerri duglega í strætó til að hann fái kvef.“
„Svo ég skil vel áhyggjur fólks með veik börn og finnst absolut að það eigi að bólusetja börn.“
Steinunn Valdís Óskarsdóttir fyrrum borgarstjóri er ein þeirra sem mótmæla þessari fullyrðingu Heiðu:
„Þetta er afar bjúrokratísk afstaða hjá ykkur Heiða og skrítið að tala um meðalhóf stjórnsýslu í þessu samhengi. Ykkur ber að hugsa um hag heildarinnar og ef æ fleiri taka þá afstöðu að bólusetja ekki börn sín er það væntanlega gert að hluta til í “skjóli” þess að aðrir kjósi að láta bólusetja og setji þá ábyrgð á aðra að ekki komi upp mislingafaraldur.“