Flugþjónninn í flugi Wowair frá Keflavík til Alicante sló á létta strengi fyrir flugtak í gær og las öryggisreglur vélarinnar sem fjölmiðlamaðurinn Magnús Hlynur Hreiðarsson. Sjáðu kostulegt myndband af atvikinu hér að neðan.
Það var Twitter-notandinn Jakob Kristinsson sem birti myndband af atvikinu á Twitter í gærkvöldi. „Flugþjónninn hjá Wowair lét alla gleyma smá seinkun á fluginu með því að taka Magnús Hlyn,“ skrifaði Jakob sem veitti DV góðfúslegt leyfi til að birta myndbandið.
Flugþjónninn hjá @wowair lét alla gleyma smá seinkun á fluginu með því að taka Magnús Hlyn ✈️ pic.twitter.com/fd4PeBgR7n
— Jakob Kristinsson (@JakobKristins) August 28, 2018
Uppátækið mældist vel fyrir hjá gestum vélarinnar að sögn Jakobs. „Meðalaldurinn var frekar hár í fluginu þannig að það voru flestir sem þekktu Magnús Hlyn, fór vel í farþegana og flugþjónninn uppskar mikið klapp,“ sagði Jakob í samtali við DV.
Magnús sjálfur hefur tjáð sig um atvikið á Facebook þar sem hann veltir því upp hvort samkeppnisaðilinn, Icelandair geti toppað þetta. „Mér finnst frábært þegar það er gert grín að mér. Nú er spurning hvort einhver flugþjónn hjá Icelandair getur ekki toppað þetta?“ skrifar Magnús.