Björgólfur Jóhannsson sagði sem kunnugt er upp sem forstjóri Icelandair Group í kjölfar nýrrar afkomuspár félagsins. Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair, tók tímabundið við forstjórastarfinu þar til stjórnin hefur ráðið nýjan forstjóra.
En hver fær það hlutverk að taka við þessu krefjandi starfi til frambúðar? Nokkrir hafa verið nefndir til sögunnar og er einn þeirra Jón Björnsson, forstjóri smásölukeðjunnar Festar.
Þetta kemur fram í Skotsilfri, dálki í Markaðnum sem fylgir með Fréttablaðinu í dag. Þar segir orðrétt:
„Að sögn kunnugra er nokkuð síðan stjórnarmenn í ferðaþjónustufyrirtækinu fóru, með óformlegum hætti þó, að líta í kringum sig eftir nýjum forstjóra, enda var vitað að Björgólfur hefði hug á því að hætta störfum á næsta ári. Er nafn Jóns sagt vera ofarlega á blaði stjórnarinnar. Jón hefur töluverða reynslu af því að endurskipuleggja rekstur fyrirtækja en hann bylti meðal annars rekstri stórverslananna Magasin du Nord og Steen & Ström.“
Björgólfur ákvað að láta af störfum því ákvarðanir hans hafi valdið félaginu fjárhagslegu tjóni og hann beri ábyrgð á því gagnvart stjórn félagsins og hluthöfum.