Anthony Martial, leikmaður Manchester United, er sagður vera gríðarlega vonsvikinn með ákvörðun Jose Mourinho á mánudag.
Martial var óvænt ekki valinn í leikmannahóp United sem mætti Tottenham á Old Trafford og tapaði 3-0.
Martial byrjaði leik United í síðustu viku gegn Brighton en þótti ekki standa sig vel í 3-2 tapi.
Frakkinn bjóst þó alltaf við því að vera í hópnum á mánudag og er alls ekki ánægður með ákvörðun Mourinho að skilja sig eftir heima.
Samkvæmt frönskum miðlum skilur Martial ekki ákvörðun stjórans en hann horfði á leikinn úr stúkunni.
Samband Mourinho og Martial er alls ekki gott eftir að sá síðarnefndi mætti of seint til æfinga eftir að hafa verið viðstaddur fæðingu sonar síns fyrr í sumar.