Góður vinur minn í Bandaríkjunum segir að ástæðan fyrir því að Donald Trump var kosinn sé sú að hvítt fólk hafi ekki þolað að hafa forseta í átta ár sem var svartur á hörund. Kjör Trumps sé svarið við því að Barack Obama var svartur.
Paul Krugman skrifar pistil í The New York Times í dag og kemst að sömu niðurstöðu. Hann bendir á að Pólland hafi ekki kosið stjórn sem er í óða önn að sundurlima lýðræðið þar í landi vegna þess að efnahagsástandið sé slæmt. Þvert á móti hafi hagkerfi Pólverja vaxið og eflst allar götur síðan í kreppunni 2008.
Það séu heldur ekki efnahagsmál sem ollu því að Trump var kosinn. Krugman segir að fjölmargar rannsóknir sýni að það var kynþáttaandúð sem var efst í huga kjósenda Trumps.
Málið er að við erum haldin sama sjúkdómi – hvítri þjóðernishyggju sem er orðin stjórnlaus – og hefur nánast gengið af lýðræðinu dauðum meðal nokkurra annarra vestrænna þjóða. Og við erum komin ískyggilega nálægt þeim stað að engin leið er til baka.
Krugman nefnir í þessu sambandi Ungverjaland og Pólland. Hann segir kaldhæðnislegan brandara í upphafi greinarinnar. Vitnar í ónefndan vin sinn, sérfræðing í alþjóðastjórnmálum, sem sagði stuttu eftir fall Berlínarmúrsins. „Nú þegar Austur-Evrópa er laus undan framandi oki kommúnismans, getur hún aftur fetað sína sögulegu braut – í átt til fasisma.“