„Í Kastljósi RÚV í gær sagði forsætisráðherra að frysting launa þeirra sem áður heyrðu undir Kjararáð kæmi launum þeirra í „ákveðið samræmi“ við almennt launafólk í árslok 2018. Þessi fullyrðing er bæði röng og villandi,“ segir í tilkynningu frá ASÍ.
Magnús Norðdahl, lögfræðingur ASÍ, segir fullyrðingu forsætisráðherra villandi, þar sem ekki er um að ræða laun æðstu stjórnenda ríkissins:
„Hún (forsætisráðherra) sagði í kastljósviðtalinu í gær að það yrði komið á nokkurskonar samræmi á milli launa sem voru ákveðin af kjararáði og launaþróunar á almennum vinnumarkaði í árslok 2018. Það er rangt. Það á við suma hópa opinberra starfsmanna, já. En þetta á ekki við um forseta Íslands, ráðherra, þingmenn eða skrifstofustjóra í ráðuneytunum. Þetta á ekki við um æðstu stjórnendur ríkisins, það er bara ekki satt. Því jafnvægi verður ekki náð fyrr en árið 2021. Þetta lá algerlega fyrir í störfum kjararáðs.“
Á vef ASÍ segir:
Starfshópur um Kjararáð sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði í ársbyrjun 2018, klofnaði í afstöðu sinni til þess hvernig bregðast ætti við útafkeyrslu Kjararáðs hvað varðar æðstu stjórnendur ríkisins sem nutu mest, rösklegrar, órökstuddrar og ólögmætrar útafkeyrslu Kjararáðs. Í niðurstöðum starfshópsins segir:
„Minnihluti starfshópsins, fulltrúi ASÍ, mælir með því að valkostur tvö, þ.e. um lækkun launa, verði ofan á hvað varðar forseta, ráðherra, þingmenn, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra. Sá valkostur gangi ekki of langt, hann samræmist rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisins frá 27. október 2015, hann standist lög og heimildir stjórnvalda samkvæmt stjórnarskrá og þeim alþjóðlegu samningum sem Ísland er bundið af og sé líklegastur til þess að stuðla að sátt á vinnumarkaði.“
Ef fallist hefði verið á niðurstöðu minnihlutans hefði það þýtt, að launum æðstu stjórnenda ríkisins yrði strax komið í takt við almennt launafólk og útafkeyrslan hvað þá varðar leiðrétt. Laun dómara og lægra settra stjórnenda yrðu hins vegar fryst og það er rétt sem forsætisráðherra sagði í gær að ákveðið samræmi milli þeirra og almenns launafólks næst að meðaltali við lok þessa árs. Það á hins vegar alls ekki við um hana sjálfa, aðra ráðherra, þingmenn, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra ráðuneytanna. Það „ákveðna samræmi“ næst ekki fyrr en við lok árs 2021.
Það er illskiljanlegt hvers vegna forsætisráðherra, ólíkt forseta Íslands, tók ekki boltann í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi voru. Fyrir slíkum afgerandi ákvörðunum eru fordæmi í ákvörðunum forvera hennar þegar mikið hefur legið við og æðstu stjórnendum ríkisins hafði verið skammtað úr sameiginlegum sjóðum meira en öðrum.
Varðandi muninn á því hvort æðstu stjórnendur ríkisins fengju ,,frystingu‘‘ eða yrði gert að þola ,,leiðréttingu og lækkun‘‘ þá er um talsverðar fjárhæðir að ræða eða rúmlega 1,3 milljarða til ársloka 2021. Í meðfylgjandi töflu má annars vegar sjá þær umframgreiðslur sem þessir hópar höfðu þegar fengið í ársbyrjun 2018 m.v. úrskurði Kjararáðs í júlí og október 2016 og hins vegar hvað það kostar ríkissjóðs að frysta laun þessara hópa þar til „ákveðið samræmi“ næst, sem líklega verður í árslok 2021.
Ríkið hafði í ársbyrjun 2018 á grundvelli útafkeyrslu Kjararáðs þegar greitt 671,3 m.kr. í bein laun og líklega 839,2 m.kr. ef litið er til framlaga til lífeyrissjóðs og annars launakostnaðar. Niðurstaða meirihluta starfshópsins var að framlengja þetta ástand til ársloka 2021. Það mun kosta ríkissjóð 378,6 m.kr. í bein laun og 473,2 m.kr. þegar allt er talið. Meirihlutinn taldi að þessir hópar hefðu ,,lögmætar væntingar‘‘ um að fá að njóta þessara greiðslna áfram og það þrátt fyrir þá megin niðurstöðu sína að Kjararáð hafi farið fram úr valdheimildum í úrskurðum sínum árið 2016. Minnihluti starfshópsins taldi að æðstu stjórnendur ríkisins gætu ekki haft lögmætar væntingar um að ríkið héldi áfram að framkvæma ólögmætar og afturkallanlegar ákvarðanir.
Ummæli forsætisráðherra í Kastljósi RUV í gær voru því bæði efnislega röng og afar villandi þegar heildarmyndin er skoðuð.