fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Magnús Skarphéðinsson sá geimskip við Snæfellsjökul: „Fyrst gerði ég ráð fyrir því að þetta væru ofsjónir“

Tómas Valgeirsson
Þriðjudaginn 28. ágúst 2018 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 5. nóvember 1993 söfnuðust um 500 manns saman við Snæfellsjökul og biðu þar í kulda og éljagangi eftir að geimverur létu sjá sig en þær höfðu boðað komu sína að jöklinum þetta kvöld.

Boðin höfðu verið send til fólks sem taldi sig næmt og var að sögn í beinu eða huglægu sambandi við vitsmunaverur á öðrum plánetum utan sólkerfis okkar. Sem von var vakti þetta mikla spennu hjá sumum en aðrir voru síður ánægðir með þessa yfirvofandi heimsókn.

Nákvæm tímasetning hafði verið gefin upp fyrir komu geimveranna og átti geimfar þeirra að lenda klukkan 21.07. Mikil spenna sveif yfir vötnum og andrúmsloftið var rafmagnað. Margir fréttamenn voru á staðnum, þar á meðal frá CNN. Hótel Búðir hafði verið opnað sérstaklega þessa helgi vegna þessarar heimsóknar. Hótelið var fullbókað og boðið upp á geimvænan matseðil.

En hvað sem skoðunum fólks leið þá lenti ekkert geimfar á eða við Snæfellsjökull umræddan dag og ekki eftir þetta, svo vitað sé. Að minnsta kosti ekki geimför eða geimverur í efnislegu formi.

„Þetta var mjög greinilegt“

„Ég hafði ekki trú á því að nokkurt geimskip myndi lenda, en ég varð að fara ef eitthvað myndi hugsanlega lenda,“ segir Magnús Skarphéðinsson í samtali við DV. Magnús hefur gegnt starfi formanns Sálarrannsóknarfélags Reykjavíkur og formanns Félags áhugafólks um fljúgandi furðuhluti.

Magnús trúir blaðamanni fyrir því sem hann hefur aldrei opnað sig um áður, að þetta örlagaríka kvöld hafi hann séð geimskip svífa yfir jöklinum. Þegar Magnús er beðinn um að lýsa aðstæðum segir hann:

„Það var sterkur vindur, kalt og ömurlegt veður þetta kvöld. Geimverurnar áttu að koma í ljósaskiptunum. Við hliðina á mér voru tvær svissneskar stúlkur. Við héldumst öll í hendur í stórum hring og mér var hugsað heim. Ég horfði til suðurs í áttina að Reykjavík og hugsaði: „Andskotans vitleysa er þetta“.

„Mér fannst þetta allt frekar ómögulegt og kuldinn var ekki að hjálpa, nema það að þegar horft var í áttina að Reykjavík sá ég mjög sterka og þykka skýjabakka. Þeir fóru hratt yfir í norðanáttinni. Þá sá ég rauðan hring. Hann hoppaði til og frá, upp og niður, gríðarlega ört. Fyrst gerði ég ráð fyrir því að þetta væru ofsjónir, en þá horfði ég betur og sá þetta mjög skýrt. Ég sagði við stelpurnar sem voru þarna að ég sæi fljúgandi furðuhlut. Þá hvarf þetta þegar þær litu upp. Svo liðu nokkrar mínútur og þá kom þessi furðuhlutur aftur. Þá benti ég aftur á þetta og þær sáu það sem ég sá. Þetta var mjög greinilegt.“

Magnús vill meina að þarna hafi verið geimskip sem áhugafólk um fljúgandi furðuhluti hafði beðið eftir með mikilli eftirvæntingu.

„Daginn eftir var ráðstefna í Háskólabíói, þar sem flestir heimsmeistarar UFO-fræðinnar voru komnir til landsins. Þeir nefnilega tóku þetta alvarlega, að þetta gæti hugsanlega gerst, enda höfðu þrjár skyggnar manneskjur fengið skilaboð frá verum um að þær ætluðu að fljúga yfir Snæfellsnesið. Tveir sjáendurnir fengu skilaboð um að verurnar ætluðu að lenda. En á fyrirlestrinum var maður sem hét Robert Ochler. Hann var fyrrverandi verkfræðingur á eftirlaunum frá NASA og hafði líklega tekist að stela myndböndum frá NASA, sem hann sýndi í stóra salnum í Háskólabíói.“

Bannað að hafa samband við vitsmunaverur

Magnús heldur áfram og er mikið niðri fyrir: „Vegna þess að það var svo svakalegt fjölmiðlafár í kringum þetta, og atburðurinn talinn mikið flopp, mættu fáir á fyrirlesturinn. Við vorum í kringum þrjátíu manns í þessum stóra sal og við fengum að sjá tuttugu og eina mynd. Mynd númer sextán sýndi rauðan hring sem hoppaði ört fram og til baka, nema þarna var hann í mjög skýrri mynd. Það var enginn skýjabakki á milli myndavélarinnar og farartækisins. Þarna sá ég að þetta var bollalaga farartæki. Ég stóð upp í salnum og galaði eins og hálfviti: „Ég sá svona í gær!““

Magnús kveðst hafa með þessu gert sig að athlægi. „Þá sagði sá sem stjórnaði fyrirlestrinum þessa ódauðlegu setningu við mig: „Og hvað?“ Auðvitað var þetta mjög eðlilegt fyrir honum en mér ógleymanleg upplifun.“

Magnús bætir við að í geimnum séu svo hann best viti fimm eða sex tegundir af geimverum sem fólk hefur séð. Aðspurður hvort það sé nú ekki dálítið einkennilegt og dragi úr trúverðugleika þess að geimverur séu til, að þá lendi hin meintu geimskip aldrei á jörðinni eða eigi í nokkrum samskiptum við jarðarbúa, segir hann einfalda skýringu á því. „Það er óskrifuð regla að það er bannað að hafa samband við vitsmunaverur sem eru komnar jafn stutt á veg og mannkynið. Örfáir eru að stelast og þeir sem eru að stelast eiga að hafa hægt um sig og mega ekki láta sjá sig,“ segir Magnús og heldur áfram: „Viðkvæmt vitkyn eins og maðurinn er svo viðkvæmt að það myndi setja allt á annan endann ef þetta yrði opinber vitneskja um verur sem eru lengra komnar. Við eigum heldur ekki neitt í þær. Reynslan hefur sýnt að það gefi mjög slæma raun þegar þær láta sjá sig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024