„Hann kastaðist til, fór upp á öldu, hún brotnaði á honum og honum einfaldlega hvolfdi,“ segir Elín Óladóttir í einlægu helgarviðtali við DV. Þar rifjar hún upp átakanlega lífsreynslu sumarið 1982 þegar faðir hennar, Óli T. Magnússon, fórst í sjóslysi.
Elín og bróðir hennar, Magnús, komust lífs af úr slysinu en þó með naumindum. Fjölskyldan bjó í bænum á þessum tíma en flutti vestur á Hellissand á vorin þar sem þau áttu hús.
„Þar réri pabbi á sumrin og við áttum því alltaf heima þar í um þrjá til fjóra mánuði á ári. Þvottavélin var bara sett á kerruna og keyrt af stað. Fyrstu árin fórum við ekki með í róðra því við vorum svo ung, en svo fékk Magnús bróðir að fara að fara með og síðar ég,“ segir hún.
Morguninn örlagaríka, 18. ágúst, 1982, hafði verið mikil bræla í langan tíma en þegar veðrið tók að skána var tekin ákvörðun um að róa.
„Pabbi var samt búinn að vera svolítið tvístígandi um hvort við ættum að fara en við ákváðum á endanum að leggja í hann. Við stímdum svona 20 sjómílur á stað sem kallast Fláki og er svolítið langt frá landi. Við ætluðum jafnvel að vera um nótt og sögðum mömmu það áður en við lögðum af stað. Við vorum auðvitað bara með talstöð og mamma ekki með neina talstöð. Á þessum tíma voru náttúrlega engir farsímar og því voru samskiptin oft flókin. Við fiskuðum þarna um daginn og allt gekk vel. Við höfum verið komin með svona 6–700 kíló af fiski þegar pabbi ákvað að við skyldum fara í land. Það hafði verið svo mikil undiralda að það mynduðust öldudalir. En þegar maður er búinn að vera svona lengi á sjó þá verður maður ekki einu sinni hræddur.“
Faðir Elínar fór niður í stýrishús á meðan hún sjálf og Magnús gerðu að aflanum uppi á dekki.
„Vanalega gerðum við að fiskinum og fórum svo niður að sofa vegna þess að það tók nokkra klukkutíma að stíma í land. En við vorum sem betur fer ekki komin niður þegar báturinn fékk á sig brot og snerist á augabragði. Hann kastaðist til, fór upp á öldu, hún brotnaði á honum og honum einfaldlega hvolfdi. Við Magnús köstuðumst fyrir borð. Hann kom fyrst upp úr sjónum og ég skömmu síðar. Við vorum í sjógöllum og stígvélum, flækt í alls konar drasl sem var um borð þannig að það var erfitt að berjast upp á yfirborðið. Báturinn var á hvolfi og við náðum bæði taki á honum,“ segir Elín
Veðrið var afar vont, mikill öldugangur og hvassviðri. Systkinin fóru að svipast um eftir föður sínum en hann var hvergi sjáanlegur. „Við vissum ekkert hvað við áttum að gera og héngum bara á bátnum þar til pabbi birtist loksins. En hann flaut bara hreyfingarlaus. Magnús bróðir synti að honum og náði að snúa honum við. Það var augljóst að hann var látinn því hann var helblár og ekkert lífsmark. Við gátum ekkert gert. Öldurnar börðu á bátnum og hann rak í aðra áttina en pabba í hina. Við urðum bara að velja,“ segir Elín.
Elín og bróðir hennar tóku ákvörðun um að fara að bátnum. Skrúfan var ennþá á fullu og óttuðust þau mjög að enda í henni.
„Við komumst loksins upp á kjöl og sátum bara þar. Við vissum ekkert hvað við áttum eiginlega að gera. Gúmmíbáturinn var undir bátnum, við vorum ekki með löglegan sleppibúnað þar sem pabbi hafði breytt honum. Hann sagði einhvern tímann við einhverja karla sem voru að gera athugasemd vegna þess að hann væri með börn um borð í bátnum og að þau þyrftu að geta leyst þetta ef eitthvað kæmi upp á. Þannig að það var bara eitt öryggisband yfir bátnum. Magnús byrjaði að kafa undir bátinn, hann batt við sig band og ég hélt í það. Hann kafaði tvisvar sinnum niður. Fyrst festist báturinn en í síðari ferðinni náðum við loks bátnum upp á yfirborðið. Magnús var mjög þrekaður eftir þessa raun og það er mér mjög minnisstætt að hann sagði mér að hann gæti ekki meira og hvatti mig til þess að halda ein áfram. En þá kom eitthvað yfir mig og ég náði að vippa bróður mínum upp á kjölinn. Ég fór síðan að reyna að opna björgunarbátinn en það gekk mjög erfiðlega. Við vorum alveg að gefast upp þegar ég kippti brjálæðislega fast í öryggisbandið og þá loksins blés báturinn út og við náðum að komast um borð við illan leik,“ segir Elín.
Þegar hér var komið sögu var skollið á niðamyrkur enda gerðist slysið um miðjan ágúst og birtu fór að bregða frekar snemma.
„Það var alveg kolsvartamyrkur og báturinn var að fyllast af sjó. Við reyndum að lesa einhverjar leiðbeiningar og sáum að við áttum að setja út einhvers konar rekakkeri til þess að báturinn yrði stöðugri. Við fundum svo neyðarsendi í björgunarbátnum en vissum ekki alveg hvernig hann virkaði. Það stóð ekki á honum hve lengi batteríið mundi endast og við vorum hrædd um að það myndi klárast. Við náttúrlega sáum ekkert, rétt svo í fjöll lengst í burtu. Við vorum um 20 sjómílur frá landi og okkur rak út fjörðinn og út á rúmsjó. Við kveiktum á sendinum upp á von og óvon. Ég man að við vorum viss um að hjálp myndi berast fljótlega en svo gerðist það náttúrlega ekkert,“ segir Elín.
Nokkrum klukkustundum síðar sáu Elín og Magnús loks skip sem kveikti hjá þeim vonarneista um björgun.
„Það voru allir í aðgerð um borð þannig að það var ofboðslega mikið ljós. Þeir sáu auðvitað ekkert út. Við skutum samt upp neyðarblysi en ekkert gerðist. Skipið sigldi bara í burtu. Við lentum í þessu svona 2–3 sinnum um nóttina. Við ákváðum að lokum að slökkva á sendinum um nóttina því við vissum að það væru flugvélar að fara af stað um morguninn. Ég man ekki af hverju við vissum það en einhverra hluta vegna vissum við að flugvélarnar myndu nema sendinn.“
Nóttin leið og um morguninn ákváðu systkinin að kveikja aftur á neyðarsendinum í þeirri veiku von að flugvélar á ferli myndu nema hann.
„Við vorum búin að vera alla nóttina í móki að tala saman. Ég man ekki alveg hvað klukkan var en ég held að hún hafi verið um hálftíu um morguninn þegar við heyrðum í flugvél. Eða við þóttumst heyra í flugvél, við vorum oft búin að halda að við heyrðum eitthvað en svo var það ekkert. Ég spurði Magnús hvort hann heyrði það sama og ég og hann játaði því. Þá kom ein flugvél en hún flaug bara fram hjá okkur og við vorum alveg gapandi. En svo vaggaði hún vængjunum og við vissum einhvern veginn að það þýddi að hún vissi af okkur. Svo flaug hún í burtu og við vorum ótrúlega hissa.“
Á þessum tíma var eina björgunarþyrla landsins biluð að sögn Elínar en send voru boð til varnarliðsins sem enn var á landinu.
„Þeir komu þarna með Fokker-flugvél og þyrlu, sem bjargaði okkur. Kafara var sleppt í sjóinn sem aðstoðaði síðan við að hífa okkur upp í þyrluna og síðan var flogið með okkur á Borgarspítalann. Þegar ég náði loks að hringja í mömmu höfðu þær fréttir borist henni að aðeins tveir hefðu lifað sjóslysið af. Það héldu því allir í bænum að það hlyti að hafa verið ég sem hefði ekki haft það af,“ segir Elín.
Símtal Elínar við móður sína var því dramatískt í meira lagi, blanda af gleði og mikilli sorg. „Þetta var rosaleg lífsreynsla. Við vorum þarna á táningsaldri systkinin og vorum föst í einhverjar 17–18 klukkustundir í gúmmíbát áður en okkur var bjargað. Það mátti litlu muna að við hefðum verið komin niður í lúkar og þá hefðum við líklega rotast og ekki komist út. Það var örugglega það sem kom fyrir pabba og kostaði hann lífið. Þegar við vorum búin að vera í marga klukkutíma í móki í bátnum vorum við farin að ímynda okkur að pabbi hefði komist af og fórum að búa til ýmsar sögur í hausnum á okkur. Það er svo óraunverulegt þegar svona hlutir gerast svona hratt. Þó að hitt sé alveg jafn ömurlegt, þá kemur þetta bara svona allt í einu á mann sem alda og tilverunni kippt undan manni. Pabbi var bara 41 árs gamall,“ segir Elín.
Þrátt fyrir þessa ótrúlegu lífsreynslu segist hún ekki vera sjóhrædd í dag.
„Ég fer alveg á sjó enn þá. Ekki til þess að vinna en ef ég þyrfti að velja sjó eða flugvél þá myndi ég alltaf velja sjóinn. Kannski af því að ég er svo vel synd. Ég var að æfa sund mjög lengi og svo er ég ekkert hrædd við sjóinn, það er ekki til hræðsla.“