fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Misheppnuð saga Herra Íslands – „Dregnir sundur og saman í háði fyrir að hafa tekið þátt“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 1. september 2018 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Keppnin Ungfrú Ísland hefur verið háð sleitulaust síðan árið 1955 og íslenskar fegurðardrottningar náð eftirtektarverðum árangri á alþjóðavísu. Ekki er hægt að segja það sama um karlpeninginn því fegurðarsamkeppnir karla hafa verið slitróttar og hent að þeim grín í gegnum árin. Ofan á það varð mikill skandall þegar Óli Geir Jónsson, herra Ísland árið 2005, var sviptur titlinum fyrir ólifnað. Keppnin á sér merkilega sögu en hefur nú ekki verið haldin í meira en áratug.

 

Helgi V. Ólafsson, Íslendingurinn 1957

Dregnir sundur og saman í háði

Árið 1957 efndi slysavarnafélagið Ingólfur til fyrstu fegurðarsamkeppni karla hér á landi og bar hún heitið Íslendingurinn 1957. Keppnin var haldin að erlendri fyrirmynd og ágóðinn nýttur til styðja við starfsemi félagsins. Keppnin var haldin sunnudaginn 8. september í hráslagalegu veðri. Engu að síður var mætingin góð, um þrjú þúsund manns, því auk stæltra folanna voru ýmis önnur skemmtiatriði á boðstólum, til dæmis dans á Tivolipallinum og flugvél sem varpaði gjafapökkum yfir mannfjöldann.

Það var leikarinn Flosi Ólafsson sem fékk það hlutverk að safna piltum í keppnina og hlutu þeir fimmtán hundruð krónur fyrir og Flosi þúsund krónur á hvern haus. Í verðlaun voru flugferð til Lundúna og vikudvöl þar til að taka þátt í keppninni herra heimur. Önnur verðlaun voru vönduð föt frá Últíma og þriðju verðlaun vetrarfrakki.

Tíu ungir karlmenn, víða af landinu, tóku þátt í keppninni og í fyrstu umferð gengu þeir fram á pall í jakkafötum. Af þeim voru þrír valdir áfram í aðra umferð af áhorfendum til að koma fram á sundbrók. Reigðu þeir sig og teygðu og hnykluðu vöðvana fyrir áhorfendur. Eftir það var kosið um lokaniðurstöðu.

Þeir þrír menn sem kepptu til úrslita voru Haukur Claessen, Þorsteinn Löve og tvítugur Reykvíkingur, Helgi Viðar Ólafsson, sem bar sigur úr býtum. Helgi var vel að sigrinum kominn enda hafði hann iðkað Atlasæfingar og „fengið stælta vöðva og íturlegan vöxt“ eins og segir í Fálkanum 13. september það ár. Bjartur var hann yfirlitum eins og „norrænir menn eigi að vera útlits.“ Auk þess var hann bindindismaður á áfengi.

Ekki fór neinum sögum af frammistöðu Helga í heimskeppninni, enda var hann aðeins 156 sentimetrar á hæð, en hann nýtti sér frægðina hér heima og auglýsti líkamsræktarbók með hinu svokallaða Atlaskerfi. Sagði hann Atlaskerfið meginorsök þess að hann hefði unnið keppnina og hlotið nafnbótina Íslendingurinn 1957.

Ekki voru allir sáttir við þessa útkomu því fimm þýskar stúlkur mótmæltu nafnbótinni. Þær töldu að Björn Pálsson sjúkraflugmaður ætti skilið að bera titilinn Íslendingurinn 1957 fyrir sína ósérhlífni og dugnað. En Björn var þá tæplega fimmtugur að aldri og hefði tæplegast átt möguleika í Helga hvað varðar útlit.

Einn þátttakandi ræddi við Vísi rúmum tuttugu árum eftir keppnina og var lítið stoltur af, svo lítið að hann vildi ekki láta nafns síns getið. Sagði hann:

„Okkur fannst þetta mesta grín og auk þess vel borgað og slógum til og ókum rakleitt í Tivoligarð. En þegar á hólminn kom og við sáum allan mannfjöldann runnu á okkur tvær grímur og sumir vildu hætta við allt saman“ og „Við sem höfðum litið á þetta sem grín, rétt eins og fólk kemur fram í skemmtiþáttum í dag fyrir greiðslu, máttum sæta því lengi á eftir, að vera dregnir sundur og saman í háði fyrir að hafa tekið þátt í þessu og virtist almenningur aldrei efast um að við hefðum tekið þátt í þessari keppni af einskærri hrifningu á eigin útliti.“

 

Erfitt í sundskýlu

Ekkert varð af keppninni Íslendingurinn 1958 og landinn mátti bíða í þrjátíu ár eftir annarri slíkri keppni. Árið 1988 var keppnin Herra Ísland loksins haldin á Akureyri en að henni stóðu útvarpsstöðin Hljóðbylgjan, sólbaðsstofan Stjörnusól og veitingahúsið Zebra þar sem keppnin var haldin.

„Það gekk ekki átakalaust að fá þátttakendur,“ sagði Ásta Sigurðardóttir, skipuleggjandi keppninnar, við Morgunblaðið 12. febrúar. „Við fengum heilmikið af ábendingum, en helmingurinn var frá fólki sem var að stríða vinum og kunningjum.“ Þeir sem vildu komast inn fyrir alvöru sendu inn myndir og undirbúningsnefnd valdi úr umsóknunum.

Öfugt við Íslendinginn 1957 þá komu keppendur fyrst fram í sundskýlum og síðan í kvöldklæðnaði. Það var síðan dómnefnd en ekki salurinn sem sá um að velja sigurvegara. Gígja Birgisdóttir, sem hlaut titilinn Ungfrú Ísland árið 1986, kynnti hver væri „vinsælasti kappinn“ og brutust út mikil fagnaðarlæti á Zebra þegar hún las upp nafn heimamannsins Hallgríms Óskarssonar, sem nú er þekktur sem lagahöfundur og hefur átt fjölda laga í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Meðal annarra keppenda má nefna kylfinginn og vaxtarræktartröllið Ívar Hauksson.

Það kom í hlut fegurðardrottninganna Bryndísar Schram og Önnu Margrétar Jónsdóttur að tilkynna sigurvegarann, Arnór Diego, 18 ára Reykvíking. Arnór var áður þekktur sem fimleikamaður, leikari, módel og break-dansari en eftir keppnina stofnaði hann byggingafyrirtæki og seldi laxveiðileyfi.

„Í keppninni sjálfri fannst mér mjög erfitt að koma fram á sundskýlu en restin var ekkert mál. Ég er það vanur því að koma fram að það hafði engin áhrif á mig,“ sagði Arnór eftir sigurinn.

Eiður Eysteinsson fékk lánaðan bíl

Fékk lánaðan bíl

Keppnin virtist ætla að festast í sessi þegar hún var aftur haldin ári síðar á Hótel Íslandi. Þá var það Eiður Eysteinsson, átján ára Kópavogsbúi, sem stóð uppi sem sigurvegari og fékk silfursleginn pípuhatt að launum. Eiður stundaði íþróttir af kappi, bæði handbolta og blak, en starfaði sem barþjónn á skemmtistaðnum Broadway. Eftir keppnina hugði hann á feril sem fyrirsæta.

„Það sem réði úrslitum var hvað Eiður hefur marga góða kosti til að bera. Góðan líkama og framkomu, hann er mjög vingjarnlegur en um leið sterkur persónuleiki,“ sagði Gunnlaugur Rögnvaldsson skipuleggjandi.

Eiður hlaut ýmiss konar verðlaun fyrir sigurinn, til dæmis sólarlandaferð til Benidorm, fataúttekt upp á fimmtíu þúsund krónur frá tískubúðinni Valentínu og Peugeot-bíl að láni í nokkra daga.

Meðal annarra keppenda árið 1989 má nefna Sölva Fannar Viðarsson, ljóðskáld, leikara og einkaþjálfara, og fatahönnuðinn Gunnar Hilmarsson.

 

Boxerbrækur ekki nógu sexí

Nokkur bið var þangað til næsta keppni var haldin en það var árið 1996 þegar Þór Jósefsson, 23 ára Reykvíkingur, var krýndur á Hótel Íslandi. Keppnin var þá mun metnaðarfyllri, keppendur fleiri og meira umstang og æfingar í kringum hana en áður.

Ein stór breyting var á keppninni frá fyrri árum því þá komu keppendurnir ekki fram á sundbrók. Til stóð að keppendurnir kæmu fram í boxerundirfatnaði í staðinn en einnig var hætt við það þar sem slíkur klæðnaður þótti einfaldlega ekki nógu sexí. Því var ákveðið að þeir myndu frekar sýna sig berir að ofan og í fráhnepptum gallabuxum.

Þór hafnaði í 4.–5. sæti í keppninni Herra Evrópa þetta sama ár og fékk í kjölfarið fyrirsætusamning við franska fyrirtækið PH One.

Hófst nú gullöld karlfegurðarkeppna og var Herra Ísland haldin árlega í áratug. Meðal sigurvegara má nefna knattspyrnustjörnuna Garðar Gunnlaugsson, verkfræðinginn Sverri Kára Karlsson og Björn Má Sveinbjörnsson sem einnig hlaut titilinn Herra Kroppur í keppninni Mr. International í Indlandi árið 2001.

Óli Geir var sviptur titli fyrir umdeildan sjónvarpsþátt

Óli Geir sviptur titli

Án nokkurs vafa er þekktasti keppandi sögunnar sigurvegarinn frá árinu 2005, Keflvíkingurinn Ólafur Geir Jónsson. Ekki fyrir sigurinn sjálfan heldur fyrir að vera sviptur titlinum aðeins nokkrum mánuðum síðar fyrir óreglu og fékk hann ekki að keppa erlendis. Elín Gestsdóttir, eigandi Ungfrú Ísland, sem jafnframt hélt Herra Ísland, tók þessa ákvörðun í janúar árið 2006 eftir að hafa horft upp á „villt líferni“ Óla. Í kjölfarið fékk Jón Gunnlaugur Viggósson, sem hafnaði í öðru sæti, titilinn herra Ísland.

„Þetta er bara kjaftæði og bull,“ sagði ósáttur Óli Geir eftir ákvörðunina. En Elínu fannst hann ekki hafa sýnt fyrirmyndarhegðun eftir að hann var valinn Herra Ísland. Óli og bróðir hans stjórnuðu sjónvarpsþættinum Splash á stöðinni Sirkus þar sem fyllerí og nekt komu mikið við sögu.

Óli gaf út yfirlýsingu þar sem hann harmaði ákvörðunina og sagðist hafa komið hreint fram við keppnishaldarana. Elín fékk hins vegar stuðning frá fólki úr bransanum, til dæmis Heiðari snyrti sem sagði: „Ef Ólafur Geir fer út og bútur úr þættinum verður sýndur, þá verður það mikil hneisa.“

Árið 2007 var keppnin haldin í síðasta sinn og sigurvegarinn þá var Ágúst Örn Guðmundsson, menntaskólanemandi á Akureyri.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“