Líkt og fram kom í fréttum fyrr í dag urðu tveir dyravarða skemmtistaðarins Shooters í Austurstræti fyrir grófri líkamsárás aðfararnótt síðastliðins sunnudag.
Tveir gestir staðarins sem vísað hafði verið af staðnum samkvæmt vitnum, sneru aftur með fleiri menn með sér og réðust á dyraverðina.
Annar þeirra var fluttur á gjörgæsludeild þar sem hann liggur ennþá. Fjórir menn voru handteknir vegna árásarinnar og féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á kröfu lögreglustjóra um tveggja vikna varðhald yfir þeim til 7. september næstkomandi.
Davíð Blessing fyrrum dyravörður á Shooters skrifaði í dag stöðufærslu á Facebook þar sem hann fjallar um árásina á vin sinn og samstarfsmann hans.
Hvað get ég sagt í átta ár hef ég verið starfandi dyravörður í miðbæ Reykjavíkur, fleiri hundrað laugardaga hef ég staðið vaktina en síðasti laugardagur varð frábrugðinn öllum þeim vöktum sem ég hef tekið áður. Síðasta laugardag fékk ég fréttirnar að stór hópur af mönnum hefði ráðist á fyrrum vinnustað minn og ráðist á vin minn og samstarfsmann hans sem stóðu vaktina þar. ekki var um venjuleg slagsmál eða nokkur högg að ræða heldur var þetta hrottaleg árás með fjölda manna sem gáfu vini mínum og samstarfsmanni hans litlar sem engar líkur til að komast óslasaðir út og það varð raunin.
Akkurat í augnablikinu er lítið hægt að gera annað en að vonast eftir hinu besta, vonast eftir bata og reyna að vera jákvæður en áverkarnir sem vinur minn varð fyrir eru mjög alvarlegir og mun tíminn einungis leiða í ljós hversu alvarlegir þeir í raun eru.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Davíð starfað sem dyravörður í miðbæ Reykjavíkur í átta ár og segist hann oft hafa verið vitni að því að dyraverðir lendi ítrekað í hótunum, jafnvel áflogum við gesti skemmtistaða. Oftar en ekki sé um að ræða venjulegt fólk sem fái sér of mikið að drekka.
Í átta ár hef ég orðið vitni af því hvernig ég ásamt öllum öðrum mönnum og konum sem starfa sem dyraverðir höfum þurft að lenda í hótunum, vera móðgaðir, verið hrækt á og oftar en ekki lent í áflogum við fólk. Þetta fólk þarf ekki alltaf að vera slæmt fólk, í neyslu eða glæpamenn eins og margir myndu ímynda sér, heldur fólk eins og ég og þú sem vinnur fimm daga vikunnar, fer í helgarfrí og fer niðrí í bæ til að skemmta sér og endar á að fá sér nokkrum drykkjum of mikið.
Segir Davíð að tilgangurinn með færslunni sé að vekja fólk til umhugsunar um að flestir dyraverðir sem standa sínar vaktir helgi eftir helgi séu gott fólk, sem sinnir sinni vinnu til að almenningur geti skemmt sér og biður fólk að íhuga hvort að of mikil drykkja sé næg ástæða til að hóta, vanvirða eða ráðast á fólkið sem stendur sína vakt sem dyraverðir.
Hver er tilgangurinn með þessum skrifum?
Nánast hver einasti íslendingur, hver einasta manneskja sem ég þekki hefur farið á einhverjum tímapunkti niður í bæ til að skemmta sér og hefur annaðhvort orðið vitni af, þekkt einhvern sem hefur verið með þessa framkomu gagnvart dyravörðum eða mögulega sýnt svona framkomu sjálfur gagnvart dyravörðum á einhverjum tímapunkti.
Ég vill minna fólk á að þó svartir sauðir geti verið innan þessara starfsstéttar eru flest allir dyraverðir sem ég hef kynnst í gegnum árin gott fólk, oftar en ekki fjölskyldufólk, sem sinnir þessari vinnu fyrir mun lærri laun en ásættanleg væru og standa sínar vaktir helgi eftir helgi til að skemmtistaðir geti verið opnir fyrir ykkur og til þess að almenningurinn geti skemmt sér og fundist þeir vera öruggir frá hættum sem því miður eru og munu ávallt vera til staðar.
Ég ætla að biðja ykkur því um að deila þessu, hugsa jákvætt til vinar mins sem liggur á spítala núna og koma þeim skilaboðum áfram að þrátt fyrir að manneskja hafi fengið sér einn eða tvo drykki of mikið að enduríhuga hvort að það sé næg ástæða til að hóta, vanvirða eða ráðast á mennina og konurnar sem standa sína vakt sem dyraverðir.
Í sama streng tekur félagi Davíðs, Trausti Már Falkvard Traustason, sem hefur starfað sem dyravörður síðastliðin níu ár. Og segist hann aldrei hafa séð jafn hrottalega árás sem þessa.
„Við munum auglýsa styrktarviðburð og reikning á næstu dögum,“ segir Trausti Már í samtali við DV. Auk þess munu allir dyraverðir Alpha Security og fleiri fyrirtækja taka höndum saman og munu laun þeirra fyrir föstudagsvaktina renna óskipt til vinar þeirra og samstarfsfélaga, sem enn liggur á gjörgæslu.
Leggja þeir áherslu á að þó að færsla Davíðs sé opin fyrir alla og að kannski margir telji sig vita hver þolandi árásinnar er, að halda nafni hans leyndu. „Þangað til upplýsingarnar eru orðnar opinberar þar sem málið er ennþá á mjög viðkvæmu stigi bæði hvað hann varðar og fjölskyldu hans. Og einnig varðandi rannsóknina gegn gerendum.“
„Dyravarðastéttin er í sumum tilvikum í álíka mikilli áhættuvinnu og lögreglumenn, án þess að hafa búnað, tól, laun eða aðstoð til þess að geta tæklað hættur í starfi á sama hátt og lögreglan gerir,“ segir Davíð. „Ef að engin dyravarsla er, þá fá skemmtistaðir ekki leyfi til að vera opnir þar sem þeir geta ekki tryggt öryggi gesta sinna. Myndi það leiða til tekjutaps fyrir eigendur og rekstraraðila, og jafnframt tekjutap fyrir Reykjavíkurborg. Þetta er eitthvað sem stjórnmálamenn, borgarstjórn og lögregla mega hafa í huga.“