Allt hófst þetta klukkan níu að morgni 28. febrúar á þessu ári. Þá réðust 80 lögreglumenn til inngöngu í húsnæði leyniþjónustunnar, Bundesamt für Verfassungsschutz und Terrorismusbekämpfung (BVT), í Vínarborg. Þeir voru íklæddir skotheldum vestum og huldu andlit sín. Einnig var ráðist til inngöngu á heimili nokkurra starfsmanna leyniþjónustunnar.
Fyrirskipun um aðgerðina var gefin tíu klukkustundum áður en hún hófst. Á bak við hana stóð nýr yfirmaður BVT, Herbert Kickl sem er innanríkisráðherra. Hann er úr þjóðernisflokknum FPÖ sem tengist Vladímír Pútín, Rússlandsforseta, og flokki hans Sameinuðu Rússlandi nánum böndum.
Yfirleitt er það úrvalssveit lögreglunnar sem sér um aðgerðir sem þessar en Kickl lét lögreglumenn sem takast venjulega á við vasaþjófa og fíkniefnasala sjá um aðgerðina. Vegna uppbyggingar lögreglunnar var auðveldara að halda aðgerðinni leynilegri með því að nota þessa lögreglumenn.
Lögreglan haldlagði gögn leyniþjónustunnar um eftirlit með öfgamönnum, bæði á hægri og vinstri vængjum stjórnmálanna sem og með íslömskum öfgasinnum. Þá voru einnig tekin afrit af skjölum um ungliðahreyfingu FPÖ að sögn austurríska tímaritsins Profil.
Í framhaldinu voru margir starfsmenn leyniþjónustunnar reknir úr starfi. Forstjóri hennar til margra ára var settur til hliðar um sinn að minnsta kosti. Við stjórn leyniþjónustunnar tók nýr varaforstjóri hennar sem Kickl hafði nýlega skipað í embætti.
Washington Post segir að í kjölfar málsins hafi vestrænar leyniþjónustur hætt að deila upplýsingum með þeirri austurrísku.
Málið hefur að vonum vakið athygli og austurríska stjórnarandstaðan og fjölmiðlar hafa gagnrýnt aðgerðirnar harðlega. Innanríkisráðuneytið hefur svarað því til að aðgerðin hafi verið innan ramma laga. En það hefur ekki orðið til að róa gagnrýnendur.
Samkvæmt frétt Profil er ein af ástæðunum sem var gefin fyrir húsleitinni sú að einn af æðstu mönnum leyniþjónustunnar hafi unnið með suður-kóresku ríkisstjórninni um að útvega norður-kóresk vegabréf. Það var 2016 sem austurríska ríkisprentsmiðjan fékk það verkefni að prenta 20.000 vegabréf fyrir einræðisstjórnina í Norður-Kóreu. Austurríska leyniþjónustan sá síðan til þess að 30 af þessum vegabréfum voru afhent suður-kóresku leyniþjónustunni. Innanríkisráðuneytið segist því óttast að brotið hafi verið á réttindum Norður-Kóreu með þessu.
Önnur ástæða sem hefur verið gefin upp er að leyniþjónustan hafi ekki eytt upplýsingum sem átti að eyða. Þetta er sagt vera slæmt dæmi um misnotkun valds og á skattfé. Austurrískir fjölmiðlar hafa þó sýnt fram á að hluti af þessu er hreinn uppspuni.
Gagnrýnendur telja augljóst að hér hafi einfaldlega verið um pólitíska árás á BVT að ræða af hálfu FPÖ en BVT hefur einmitt fylgst með og rannsakað tengsl flokksins við Rússland.