Fjölmiðlanefnd komst að því fyrir helgi að Sjónvarpsstöðin Hringbraut hefði í fjórgang brotið gegn fjölmiðlareglum. Í einum dómnum var kveðið á um óheimila kostun fréttatengds efnis og broti á reglum um hlutlægni og friðhelgi einkalífs í þáttunum Gjaldeyriseftirlitið í október í fyrra.
Staksteinar Morgunblaðsins segja að fjölmiðlanefnd hafi fært sig upp á skaftið og saka nefndina um ritskoðun:
„Fjölmiðlanefnd ríkisins færir sig upp á skaftið með nýjum ákvörðunum um efni í litlum fjölmiðli, Hringbraut. Ríkisstofnunin sektar nú þennan fjölmiðil vegna umfjöllunar um tvö mál. Í annarri umfjölluninni kom fram gagnrýni á Seðlabankann, núverandi seðlabankastjóra og gjaldeyriseftirlit bankans. Ríkisstofnunin segir að hlutlægni hafi ekki verið gætt í umfjölluninni og sektar miðilinn. Þegar ríkisafskipti af fjölmiðlum eru komin út á slíka braut hlýtur að verða að staldra við. Ríkið getur haft mikil afskipti af efni frjálsra fjölmiðla með þeim rökum sem ríkisstofnunin ber fram gegn Hringbraut nú. Er það sú leið sem ráðamenn þjóðarinnar og alþingismenn vilja feta? Ætlar ríkið að halda áfram að ritskoða íslenska fjölmiðla?“
Þá víkur höfundur að RÚV, en sú ríkisstofnun er Morgunblaðinu afar hugleikin:
„Slík ríkisstofnun getur líka látið undir höfuð leggjast að gera nokkuð þó að hlutlægni sé ekki gætt. Í könnunum sem Fjölmiðlanefnd lét gera fyrir tveimur árum kom fram að almenningur sér í gegnum fréttaflutning Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnmálaflokkunum. Stuðningsmenn vinstri flokkanna töldu Rúv. fremur hlutlaust í umfjöllun en stuðningsmenn annarra flokka töldu Rúv. alls ekki hlutlaust. Þetta stafar vitaskuld af því að Rúv. dregur taum vinstri flokkanna í umfjöllun sinni. Fjölmiðlanefnd setti ekki ofan í við Rúv. vegna þessa og sektaði það ekki.“