Chelsea á Englandi reyndi að fá markvörðinn David de Gea frá Manchester United í sumarglugganum.
Enskir miðlar greina frá þessu en Chelsea leitaði að markverði eftir að ljóst var að Thibaut Courtois væri á förum.
Courtois vildi komast til Real Madrid og fékk loksins að fara eftir deilur við enska félagið í allt sumar.
Samkvæmt fregnum dagsins var De Gea á óskalista Chelsea og hafði liðið samband við United undir lok gluggans.
United hafði hins vegar engan áhuga á að selja De Gea og býst við að Spánverjinn skrifi undir nýjan samning á næstu vikum.
Chelsea leitaði að lokum til Spánar og keypti markvörðinn Kepa Arrizabalaga frá Athletic Bilbao fyrir metfé.