fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Pressan

Bróðir hennar var myrtur árið 1978 – 37 árum síðar fann hún morðingja hans á Facebook

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 27. ágúst 2018 07:16

Peta Frampton og Chris Farmer.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1978 fór Chris Farmer, 25 ára, í ferðalag um Karabískahafið og Mið-Ameríku ásamt unnustu sinni Peta Frampton, 24 ára. Þau skiluðu sér aldrei aftur heim úr ferðalaginu en lík þeirra fundust síðar í sjónum við Gvatemala. Þau höfðu bæði verið pyntuð og þungir vélarhlutir höfðu verið festir við lík þeirra til að reyna að sökkva þeim.

Peta sendi fjölskyldu sinni bréf frá Belís þar sem hún sagði að þau hefðu hitt Bandaríkjamann og tvo syni hans þar í landi en þeir sigldu um á fiskibát. Parið hafði samið við feðgana um að sigla með þeim til Hondúras. Báturinn, sem hét Justin B, sigldi síðan frá Belís  en ekki til Hondúras. Hann sneri skömmu síðar aftur til Belís en þá voru Chris og Peta ekki um borð.

Lögreglan í Gvatemala gerði ekki mikið eftir að líkin fundust og hóf aldrei eiginlega morðrannsókn. Í samtali við BBC sagði systir Chris, Penny Farmer, að Gvatemala hafi verið þriðja heims ríki á þessum tíma og nær engin lögregla í landinu. Þá voru engin diplómatísk tengsl á milli Gvatemala og Bretlands á þessum tíma þar sem Gvatemala gerði kröfu til yfirráða í Belís sem var þá breskt yfirráðasvæði.

Breska lögreglan fann út hver bandaríski bátseigandinn var. Hann hét Silas Boston og bjó í Sacramento í Kaliforníu. Breski ræðismaðurinn í Kaliforníu ræddi við Silas sem sagðist ekki kannast neitt við málið. Ræðismaðurinn var þó sannfærður um að hann tengdist morðunum á unga parinu en hafði engar sannanir. Faðir Chris hringdi í Silas og ræddi við hann en sem fyrr þvertók hann fyrir að vita nokkuð um málið.

Í kjölfarið lognaðist málið út af og ekkert gerðist áratugum saman.

Fékk hugmynd í göngutúrnum

Það var síðan 2015 að Penny var úti að ganga með móður sinni þegar þeirri hugsun laust niður í huga hennar hvort hún gæti fundið Silas Boston á Facebook. Það kannaði hún um leið og hún kom heim og það bar árangur. Hún fann hann á Facebook sem og syni hans tvo sem voru með honum í siglingunni. Einnig fann hún fimmtu eiginkonu Silas. Hún sendi þeim öllum skilaboð en fékk engin svör.

Penny Farmer.

Þá setti Penny sig í samband við bresku lögregluna sem setti sig í samband við lögregluna í Sacramento í Bandaríkjunum. Þar var upplýsingunum tekið fagnandi því nýbúið var að hefja rannsókn á nýjan leik á dularfullu hvarfi þriðju eiginkonu Silas. Í tengslum við þá rannsókn höfðu synir hans sagt lögreglunni að það væri vel þekkt fjölskylduleyndarmál að faðir þeirra hefði myrt móður þeirra.

Einnig kom fram að synirnir höfðu í þrjá áratugi reynt að sannfæra lögregluna um að faðir þeirra hefði myrt Chris Farmer og Peta Frampton að þeim viðstöddum.

Sagðist hafa myrt 33

Lögreglan hóf því rannsókn af fullum þunga og náði á endanum að komast til botns í hvað gerðist 1978 á báti Silas.

„Boston var nauðgari. Bróðir minn var í slæmu ástandi og var bundinn uppi á dekki. Peta var niðri í klefa. Ég þarf ekki að segja mikið meira. Ég vona að fólk geti tengt þetta saman án þess að ég þurfi að fara mikið út í smáatriði.“

Sagði Penny í samtali við BBC.

„Það yljar mér um hjartaræturnar að þrátt fyrir að Chris væri höfuðkúpubrotinn og með mörg brotin bein og það væri blóð út um allt dekkið þá reyndi hann enn að hughreista og róa Peta með að segja henni að allt yrði í lagi. Jafnvel þegar þau voru bæði bundin eins og kalkúnar og biðu bara eftir að vera kastað fyrir borð.“

Sagði Penny.

Silas Boston.

Silas sagði syni sínum, Russell Boston, að hann hefði í heildina myrt 33 manneskjur. Ef það er rétt var Silas einn afkastamesti raðmorðinginn í sögu Bandaríkjanna.

BBC segir að samkvæmt framburði Russell þá hafi faðir hans einnig myrt tvo ferðamenn til viðbótar og hafi þeir líklega verið frá Norðurlöndunum. Bandarísku alríkislögreglunni FBI hefur þó ekki tekist að komast neitt áleiðis með þann hluta málsins.

Silas Boston var handtekinn þann 1. desember 2016 og ákærður fyrir að hafa myrt Chris Farmer og Peta Frampton. Hann var þá orðinn gamall og lasburða. Eftir handtökuna hafnaði hann allri læknisaðstoð og lést í apríl á síðasta ári áður en málið kom fyrir dóm.

„Hann flúði eins og hugleysingi. Mér finnst ég hafa verið svikin. Ég vildi gjarnan hafa hitt hann í dómsalnum til að segja honum hvernig hann eyðilagði fjölskyldurnar okkar.“

Sagði Penny. Hún hefur skrifað bókin „Dead in the Water“ til að skapa lifandi minningu um bróður sinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags
Pressan
Í gær

Leynd viðvörunarmerki líkamans – 7 snemmbúin merki um Parkinson

Leynd viðvörunarmerki líkamans – 7 snemmbúin merki um Parkinson
Pressan
Fyrir 2 dögum

„Það er svo sannarlega ekki þess virði að veipa“

„Það er svo sannarlega ekki þess virði að veipa“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár
Pressan
Fyrir 3 dögum

Zuckerberg gagnrýnir stjórn Biden harðlega – „Öskra og bölva“

Zuckerberg gagnrýnir stjórn Biden harðlega – „Öskra og bölva“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Elon Musk setti tölvuleikjasamfélagið á hliðina og er sakaður um svindl – „Almáttugur, þetta er næstum því of heimskulegt til að vera satt“

Elon Musk setti tölvuleikjasamfélagið á hliðina og er sakaður um svindl – „Almáttugur, þetta er næstum því of heimskulegt til að vera satt“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Var sakaður um hryllilegan glæp skömmu eftir að þessi mynd var tekin

Var sakaður um hryllilegan glæp skömmu eftir að þessi mynd var tekin
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þýskur nýnasisti skiptir um kyn til að freista þess að fá að afplána í kvennafangelsi

Þýskur nýnasisti skiptir um kyn til að freista þess að fá að afplána í kvennafangelsi