Ástralska fréttasíðan News.com.au segir að í borginni fljóti líkin um göturnar, þar á meðal eru sundurhlutuð lík. Í síðustu viku fundust átta lík á götum úti. Þar af voru tvö sem var búið að hluta í litla bita.
Meðal annarra fórnarlamba má nefna mann sem hafði verið bundinn og síðan skotinn. Annar var drepinn á meðan hann lá í hengirúminu sínu.
Morðin eru afleiðing ofbeldisbylgju sem hefur ríkt í þessari ferðamannaparadís það sem af er ári. Milljónir ferðamanna leggja leið sína til Cancun ár hvert en yfirvöld óttast að ferðamönnum muni snarfækka vegna ofbeldisins. Lögreglumönnum í borginni hefur verið fjölgað og þeir vakta nú stöðugt staði sem ferðamenn sækja, til dæmis strendurnar við borgina.
Í vor fjölluðu fjölmiðlar víða um heim um hræðilega ofbeldisöldu sem reið yfir borgina á nokkrum klukkustundum en þá voru 14 morð framin á aðeins 36 klukkustundum. Þá var fjöldi morða í borginni kominn upp fyrir 100 það sem af var ári og enn hefur sú tala hækkað.
Yfirvöld hafa hvatt fólk til að taka þessu rólega og hafa bent á að ofbeldið tengist aðallega Mexíkóum. Í þau örfáu skipti sem útlendingar hafi tengst málunum þá hafi þeir verið viðriðnir eitthvað óeðlilegt eða glæpsamlegt.
Morðin tengjast líklega flest átökum eiturlyfjahringja í landinu. En það er samt sem áður full ástæða fyrir ferðamenn að sýna mikla aðgæslu enda aldrei að vita hvar og hvenær eiturlyfjahringarnir láta til skara skríða og því ekki útilokað að saklaust fólk lendi í skotlínunni.