Kominn heim frá sumardvöl í útlöndum tekur maður eftir einu og öðru.
Verðið á veitingahúsunum virðist hafa hækkað enn. Mér sýnist vera dýrara að fara út að borða en var snemma vors. Mörg veitingahúsin leggja ekki lengur í að birta verð á matseðlum eða skiltum sem eru utan á þeim.
Þetta hlýtur að koma til dæmis Bandaríkjamönnum sem hingað koma á mjög lágum flugfargjöldum talsvert í opna skjöldu. Þeir spara með fluginu – en það tapast allt ef þeir fá sér að borða og drekka.
Veitingahúsunum hefur líka fjölgað enn. Í fjölmiðlum var um daginn talað um algjöra mettun á þeim markaði.
Manni sýnist að túristabúðunum hafi fjölgað enn í Miðbænum, þ.e. á Skólavörðustíg og Laugavegi. Og það er líkt og ekkert þrífist á þessum götum nema ferðamannaverslanir. Bókabúðirnar eru að verða líkari minjagripabúðum. Eggert feldskeri er hættur á Skólavörðustígnum og komin túristabúð í staðinn.
Brátt bætist við heilmikið pláss undir verslanir og veitingahús á Hafnartorgi svokölluðu og á Hverfisgötu. Maður spyr hver eigi að nota allt þetta pláss? Verslunarrými í nýbyggðum húsum við Laugaveg stendur autt, til dæmis á svonefndum Hljómalindarreit og á Laugavegi 4-6. Þar beint á móti, á Laugavegi 3, er líka glæsilegt húsnæði sem stendur autt.
Einhvern tíma var talað um alls kyns lúxusverslanir sem yrðu starfræktar á Hafnartorgi, en það virkar ekki mjög sennilegt.
Hugsanlegt er að leiguverðið lækki eitthvað vegna þessa offramboðs. Maður hefur heyrt að verslunum sem starfa á Laugavegi standi nú jafnvel til boða að koma í ódýrari leigu á Hafnartorgi.