„Leiklistarneminn, Vilhelm Neto, er í harðri keppni við Pírata um réttlætis-og siðferðisverðlaun ársins. Honum finnst fullkomlega eðlilegt og siðferðilega rétt að leikarinn, Kjartan Guðjónsson, megi hvergi starfa til að hafa ofan í sig og á, þar sem hann hafi fengið 15 mánaða fangelsisdóm fyrir tæpum 30 árum. Nú er bara að vona að Vilhelm Neto misstigi sig aldrei á hálri braut réttvísinnar svo hann þurfi ekki að eyða lífinu allslaus á framfæri skattgreiðenda,“ skrifar Brynjar Níelsson þingmaður í harðorðum pistli á Facebook vegna umfjöllunar um kynferðisbrot Kjartans Guðjónssonar leikara.
Forsagan er sú að Vilhelm Neto leiklistarnemi vakti athygli á gömlum dómi yfir Kjartani Guðjónssyni sem árið 1989 var dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir hrottafengna nauðgun. Eins og DV greindi frá í frétt í gær leiddi þessi uppljóstrun til þess að SS hefur hætt birtingum á vinsælum pylsuauglýsingum með Kjartani í aðalhlutverki.
Brynjari blöskrar framganga Vilhelms og leggur til að tekin verði upp kristnifræðikennsla í leiklistarskólanum:
„Svo legg ég til að leiklistarbrautin taki upp kennslu í kristinfræðum til að kynna nemum mikilvægi kærleikans og fyrirgefningarinnar í mannlegu samfélagi. Einnig mætti splæsa í einn kúrs fyrir þingflokk Pírata.“
Tekið skal fram að í sinni ádeilu nafngreindi Vilhelm aldrei Kjartan Guðjónsson en hann var nafngreindur í frétt DV um málið.
Vegna mikils áreitis í kjölfar fréttar DV hefur Vilhelm Neto ákveðið að loka Twitter-reikningi sínum. Hann skrifar: „Sæl, ætla að loka accountin minn í stuttan tíma vegna áreiti sem ég er búinn að fá vegna DV“