Fjölmiðlanefnd hefur dæmt sjónvarpsstöðina Hringbraut í tveggja milljóna króna sekt fyrir að hafa sýnt áfengar vörutegundir Ölgerðarinnar í sjónvarpsþætti. Hringbraut hefur sent frá sér svohljóðandi yfirlýsingu þar sem úrskurðinum er mótmælt:
Hringbraut-fjölmiðlar hafnar ásökunum fjölmiðlanefndar um lögbrot og telur nefndina fara með rangindi í ákveðnum liðum ákæra sinna vegna fjögurra þátta sjónvarpsstöðvarinnar. Hringbraut hefur leitað aðstoðar lögfræðinga og mun láta reyna á málin fyrir dómstólum. Þá furðar Hringbraut sig á ágangi fjölmiðlanefndar gagnvart Hringbraut í gríðarlega erfiðu og ósanngjörnu rekstrarumhverfi lítilla einkarekinna fjölmiðla á Íslandi.
Í leiðara Fréttablaðsins í dag kemur Kristín Þorsteinsdóttir ritstjóri sjónvarpsstöðinni til varnar og gagnrýnir Fjölmiðlanefnd:
„Fjölmiðlanefnd fer með heilmikið opinbert vald, sem hún beitir gegn þeim sem síst skyldi. Stóru málin, eins og margháttaðan síendurtekinn yfirgang RÚV í viðkvæmri samkeppni, lætur hún óátalin en sýnir viðkvæmum nýgræðingum tennurnar. Í skrautlegum margliða úrskurði í gær var sjónvarpsstöðinni Hringbraut, litlu sprotafyrirtæki, gert að greiða tveggja milljóna sekt vegna meintra brota sem erfitt er að átta sig á. Hringbraut er örlítil viðbót á litlum markaði og gerir engum mein með rekstri sínum. Þvert á móti – þar er oft fínasta sjónvarpsefni um menn og málefni sem lengi lifir og fólk horfir á þegar því hentar. Vitnað er í stöðina í öðrum miðlum og á netinu. Hún bætir við umræðuna. Allir nema fjölmiðlanefnd sjá, að stöðin er rekin af vanefnum. Tvær milljónir króna eru ekki hristar fram úr erminni í rekstrinum.“